Fjölbreytt og öflugt atvinnulíf er undirstaða góðra lífskjara og velsældar. Þar er iðnaðurinn í lykilhlutverki sem stærsta atvinnugreinin á Íslandi. Iðnaðurinn kemur víða við í okkar daglega lífi og er mun fjölbreyttari en fólk áttar sig á. Fjölbreytt iðnfyrirtæki um land allt skapa tugþúsundir starfa og miklar útflutningstekjur og þannig stóran hluta af þeim verðmætum sem tryggja afkomu fólks, fyrirtækja og samfélaga.

Okkur Íslendingum hefur borið gæfa til að virkja hugvitið í gegnum aldirnar. Segja má að síðasta iðnbylting hafi orðið á Íslandi á síðustu öld þegar við réðumst í uppbyggingu á öflugu raforkukerfi og hitaveitu. Með því að nýta fallvötnin og jarðvarmann jukum við verðmætasköpun og tókum stórt skref í átt að auknum lífsgæðum þjóðarinnar. Þessi bylting, sem felst í því að virkja sjálfbæra og endurnýjanlega orku, gefur okkur einnig forskot þegar við tökumst á við loftslagsmálin.

Vaxtartækifæri í iðnaði

Íslenskt samfélag stendur þó á ákveðnum krossgötum. Á Íslandi hefur ríkt góðæri, kaupmáttur hefur vaxið gífurlega á liðnum áratug og hagvöxtur er talsverður. Áskoranirnar eru um leið umtalsverðar. Verðbólga er nú of há og verðbólguþrýstingur mikill. Vextir eru háir og útlit er fyrir að enn frekari hækkanir gætu verið í pípunum. Krónan er veik og horfur eru á hallarekstri ríkissjóðs. Þar blasir ekki síst við öldrun þjóðarinnar sem fer að skella á samfélaginu með miklum tilkostnaði.

Áskoranir til framtíðar eru sem betur fer bjartari. Blessunarlega eru framundan stórtæk áform í atvinnulífinu, t.d. í hugverkaiðnaði og lagareldi. Þá blasir við að grundvöllur aukinnar hagsældar eru vaxtartækifæri alþjóðageirans, en honum tilheyra öll fyrirtæki sem fá útflutningstekjur sem byggja á öðru en okkar takmörkuðu auðlindum. Vöxtur alþjóðageirans hefur verið nokkur en framlag hans til landsframleiðslu og útflutnings er enn lágt miðað við samanburðarlönd. Þessu þurfum við að breyta enda hefur Ísland alla burði til þess að hér byggist upp öflugt og alþjóðlegt þekkingarsamfélag, byggt að stórum hluta á hugverkaiðnaði.

Ég trúi því innilega að við getum rennt fleiri og sterkari stoðum undir hagkerfi okkar með því að virkja hugvitið og aukið þannig verulega lífsgæði í landinu.

Lausnin er hvorki stök né einföld. Það er mikilvægt að dregið verði úr útgjöldum og að fjármagni sé forgangsraðað til að fjárfesta til framtíðar í þeim tilgangi að sækja fram, efla samkeppnishæfni okkar og styðja við stoðir íslensks efnahagslífs.

Hugvitið verði okkar stærsta útflutningsgrein

Aðgerðaráætlun til að efla þekkingarsamfélagið á Íslandi var lögð fram í samráðsgátt stjórnvalda í síðustu viku. Í því felst sú sýn að hægt sé að vaxa út úr sveiflukenndu efnahagsástandi með því að beina sjónum að hugvitinu. Forsenda slíks vaxtar eru breyttar áherslur í menntakerfinu, í vísindum, nýsköpun, sjálfbærum þekkingariðnaði og svo mætti áfram telja. Verkefnið er að skapa umgjörðina og marka skýra stefnu þannig að fólk og fyrirtæki geti gripið keflið og hlaupið í mark.

Sýnin um að hugvitið verði okkar stærsta útflutningsgrein ekki úr lausu lofti gripin og ég trúi því innilega að við getum rennt fleiri og sterkari stoðum undir hagkerfi okkar með því að virkja hugvitið og aukið þannig verulega lífsgæði í landinu. Í sameiningu eigum við að undirbúa okkur fyrir verkefni framtíðarinnar, setja okkur skýr markmið um það hvert við stefnum og hvernig við ætlum að komast þangað.

Háskóli Íslands
© Axel Jón Fjeldsted (VB MYND/AXEL JÓN)

Við þurfum að auka gæði háskólanna og virkja rannsóknir betur í nýsköpun og efla rannsóknarhlutverk skólanna. Ísland á að vera eftirsóknarverður staður fyrir fólk með stórar hugmyndir, fólk sem skapar fleiri ný og spennandi störf og atvinnugreinar sem byggðar eru á hugviti.

Okkur vantar fólk

Við eflum þekkingarsamfélagið og aukum samkeppnishæfni Íslands með því að leysa úr læðingi þá krafta sem myndast við nýsköpun og samþættingu hugmynda sem hreyfiafls í málaflokkum háskóla, vísinda, rannsókna og hugverkaiðnaðar ásamt fjarskipta og upplýsingatækni.

Með þeim kröftum getum við skapað ný störf og ný tækifæri, aukið vöxt og verðmætasköpun íslensks atvinnulífs um leið og við bætum lífsgæði þjóðarinnar til lengri tíma. Það er þangað sem við stefnum og þangað komumst við með samhentu átaki stjórnmálanna, atvinnulífsins og menntakerfisins.

Samtök iðnaðarins hafa bent á að það vantar níu þúsund sérfræðinga á Íslandi næstu fimm árin svo að áætlanir um vöxt í hugverkaiðnaðinum geti orðið að veruleika. Ef okkur er alvara með að hér byggist upp alþjóðlegt þekkingarsamfélag sem eykur hér hagsæld og stækkar kökuna þurfum við fólk. Við þurfum fleiri alþjóðlega sérfræðinga og við þurfum að mennta fólk meira í þeim greinum sem samfélagið okkar kallar eftir svo vaxtartækifærin í iðnaði verði að veruleika.

Menntakerfið þarf að þjóna sem best þörfum atvinnulífsins og mæta áskorunum samfélagsins.

Á Alþingi er nú til umræðu frumvarp sem er fyrsta skrefið í að auðvelda alþjóðlegum sérfræðingum að koma til Íslands og er ákveðin hraðleið fyrir greinar í hugverkaiðnaði þar sem vöntun er.

Ef við ætlum að ná árangri fyrir Ísland er mikilvægt að fjölga nemendum í STEAM greinum og auka samkeppnishæfni íslenskra háskóla. Með skýrri sýn, markvissari vinnubrögðum og nýju reiknilíkani háskóla verður fjármagni stýrt betur og nýtt í tækifæri sem styðja við áskoranirnar sem við okkur blasa.

Árangur fyrir Ísland

Til þess að alþjóðageirinn geti vaxið hér á landi og orðið að þeirri burðugu efnahagsstoð sem við þurfum, líkt og hann gerir í mörgum samanburðarlöndum, eru háskólarnir í lykilhlutverki í góðri samvinnu við vísindasamfélagið og nýsköpun.

Menntakerfið þarf að þjóna sem best þörfum atvinnulífsins og mæta áskorunum samfélagsins. Þannig aukum við hagsæld og hagvöxt til framtíðar. Við sem samfélag berum öll ábyrgð á að bæta úr stöðunni. Við verðum að vaxa út úr sveiflukenndu efnahagsástandi og það gerum við með því að hugvitið verði okkar stærsta útflutningsgrein. Þannig bætum við lífsgæði og fjölgum tækifærum. Þannig náum við árangri fyrir Ísland.

Þau verkefni sem hér hafa verið talin upp eru öll mikilvæg en til að fylgja þeim eftir þarf skýra sýn og pólitískan vilja. Ég hef lagt áherslu á þau í mínum störfum og mun halda því áfram. Arðsöm störf og aukin verðmætasköpun verður þó ekki til á skrifborðum ráðuneyta eða ríkisstofnana. Því er mikilvægt að þau einbeiti sér að því að skapa grundvöll og réttu skilyrðin fyrir fólk og fyrirtæki til að taka hugmyndir og verkefni lengra en áður hefur verið gert og skapa þannig raunveruleg verðmæti fyrir sig og þjóðarbúið. Þannig verðum við fremst meðal þjóða á mörgum sviðum.

Greinin birtist í sérblaðinu Iðnþing 2023 sem kom út fimmtudaginn 9. mars 2023.