Raunvextir voru mjög háir á Íslandi lungann úr tíunda áratug síðustu aldar.
Raunvextir voru mjög háir á Íslandi lungann úr tíunda áratug síðustu aldar.
Þessi staðreynd gleymist oft. Háa raunvexti og aðhald í ríkisfjármálum þurfti ásamt þjóðarsáttarsamningunum til að ná fram stöðugleika í efnahagslífinu eftir óðaverðbólguna áratuginn á undan.
Eins og gefur að skilja tók þetta á og um miðjan áratuginn var menn farið að lengja eftir bærilegra raunvaxtastigi. Árið 1995 hafði Finnur Ingólfsson tekið við sem viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Hann gagnrýndi bankana harðlega fyrir að hækka vexti í takt við þróun vaxta á markaði. Á Iðnþingi í apríl það ár sakaði Finnur bankana um að vera að „slátra mjólkurkúnni“ – það er að segja heimilum og fyrirtækjum – með vaxtastefnu.
Morgunblaðið bar þessi ummæli undir Sverri Hermannsson, bankastjóra Landsbankans sem, sagði: „Það er gróflega dapurlegt að þessi nýi vaxtamálaráðherra Framsóknar, arftaki Steingríms Hermannssonar, skuli grípa öll tækifæri til að tala eins og flón um vaxtamál. Ég hlýt að verða smeykur um hann Davíð minn.“
Aftur til dagsins í dag. Það vakti töluverða athygli þegar Arion banki hækkaði vexti á verðtryggðum lánum í síðustu viku. Bankinn hækkaði vexti á breytilegum íbúðalánum um 60 punkta og um 50 punkta á íbúðalánum með föstum vöxtum. Íslandsbanki fylgdi svo í kjölfarið.
Bæði Vísir og Morgunblaðið sögðu vaxtahækkunina „hressilega“ og svo virðist að hún hafi komið stjórnmálamönnum og verkalýðsforkólfum í opna skjöldu. Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, sagði vaxtahækkunina vera „með ólíkindum og merki um taumlausa græðgi“ og Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, fordæmdi hana í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í síðustu viku og fleiri þingmenn tóku í sama streng af því tilefni. Það ber fjármálalæsi þingmanna og verkalýðsleiðtoga ekki fagurt vitni.
En þessi vaxtahækkun átti ekki að koma neinum á óvart. Hún var fyrirsjáanleg rétt eins og það er hægt að ganga út frá því sem vísu að vextir á verðtryggðum fasteignalánum eigi eftir að hækka enn frekar.
Ástæðan fyrir því er ekki eingöngu samspil vaxta og verðbólgu heldur hefur viðvarandi hallarekstur ríkisins mikið um það að segja. Fjölmiðlarýnir gengur út frá því að ef Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, og Vilhjálmur Birgisson formaður, Verkalýðsfélags Akraness, þekkjast þá talist þeir þá ekki mikið við enda benti sá síðarnefndi réttilega í viðtali við Morgunblaðið í síðustu viku á að viðvarandi hallarekstur ríkisins grafi undan hagsmunum launafólks.
Bankar fjármagna verðtryggð útlán annars vegar með útgáfu sértryggðra skuldabréfa og hins vegar með því að taka á móti verðtryggðum innlánum. Þeir borga vexti af skuldabréfunum og innlánunum. Til þess að það borgi sig fyrir bankana að lána þetta fé til fasteignakaupa einstaklinga þarf vaxtamunurinn að standa straum af rekstrarkostnaði, sköttum og gjöldum og viðunandi arðsemi til hluthafa.
Ef fjármögnunarkostnaðurinn við veitingu fasteignalána eykst þá er fyrirsjáanlegt að vextir á slíkum lánum hækki. Það er einmitt það sem hefur verið að gerast og ástæðan er ekki eingöngu stýrivaxtastig Seðlabankans heldur jafnframt hallarekstur ríkisins. Í einföldu máli fjármagnar ríkið hallarekstur sinn með sölu á skuldabréfum og víxlum og það hefur ríkið svo sannarlega gert undanfarin ár og þá sérstaklega með útgáfu stuttra víxla. Útgáfa ríkisvíxla hefur farið úr því að vera 20 milljarðar árið 2020 yfir í að vera 185 milljarðar í ár. Þetta er dýr fjármögnun sem hefur meðal annars leitt til þess að fjármagnskjör annarra skuldabréfaútgefenda á borð við banka hafa versnað.
Það er gríðarlegt framboð af kuldum um þessar mundir og lánsfjárþörf ríkisins er slík að vextir á útgáfum annarra hækka enn frekar. Ágætt dæmi um þetta er að banki sem er nú að lána verðtryggð fasteignalán á um fjögurra prósenta vöxtum fjármagnar sig um þessar mundir á 3,9% vöxtum með útgáfu sértryggðs skuldabréfs. Þetta sýnir augljóslega að bankinn verður knúinn til þess að hækka útlánavextina til þess að geta endurheimt lánið án taps.
Þó svo að stýrivextir lækki í fyrirsjáanlegri framtíð mun hallarekstur ríkisins og endurfjármögnunarþörf þess viðhalda hærri vöxtum á aðra útgefendur og þar með fjármögnunarkjörum heimila og fyrirtækja. Það er því rétt sem Skagamaðurinn sem Vilhjálmur í Starfsgreinasambandinu talar ekki við benti á í viðtalinu: Grundvallarhagsmunir heimilanna felast í því að böndum verði komið á hallarekstur ríkisins og fjölmiðlar mættu gjarnan gefa þessum þætti málsins meiri gaum.
Íljósi þessa var undarlegt að fylgjast með Lilju Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra í Kastljósinu á fimmtudaginn í síðustu viku. Þar var hún ásamt Kristrúnu Frostadóttur, formanni Samfylkingarinnar, og ræddu þær stöðu efnahagsmála.
Lilja sagði að henni væri misboðið yfir vaxtahækkunum bankanna og sakaði þá um að „taka snúning“ á viðskiptavinum sínum og hana grunaði að vaxtamunur væri að aukast og ætlaði að láta ráðuneyti sitt kanna það sérstaklega. Það hefði ekki verið skrýtið ef
ofangreind ummæli Sverris Hermannssonar um vaxtaflónin hefðu rifjast upp fyrir einhverjum áhorfendum Ríkisútvarpsins þetta kvöldið.
Í fyrsta lagi er undarlegt að viðskiptaráðherra ríkisstjórnarinnar skuli ala á tortryggni gagnvart viðskiptabönkunum sem starfa á samkeppnismarkaði undir vökulum augum
eftirlitsstofnana. Í öðru lagi má velta fyrir sér hvað starfsmenn viðskiptaráðuneytisins eigi eiginlega að skoða í þessum efnum.
Þeir geta til að mynda skoðað síðustu fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabankans. Þar kemur fram álit sérfræðinga Seðlabankans um að vaxtamunur í bankakerfinu hafi náð hámarki og búast megi við að hann fari minnkandi til lengri tíma litið. Ástæðan fyrir minni vaxtamun er aukinn fjármögnunarkostnaður rétt eins og Arion banki útskýrði þegar hann hækkaði vexti í síðustu viku. Seðlabankinn bendir réttilega á að í þeim tilfellum sem vaxtamunur eykst á fasteignalánum sé um að ræða lán sem báru áður fasta vexti og þar af leiðandi sé ekkert óeðlilegt við að vaxtamunurinn aukist á þeim miðað við breyttar aðstæður frá því að vextirnir voru bundnir.
Að lokum er rétt að halda því til haga að vaxtamunurinn er meðal annars til kominn vegna kostnaðar við lánveitingu og skipta skattar og gjöld þar miklu máli auk fjármögnunarkostnaðar. Það getur varla talist ósanngjörn krafa að lánveitandi vilji fá greitt fé sitt til baka með viðunandi arðsemi.
Fasteignalán eru í flestum tilfellum stærsta fjárhagslega skuldbinding heimila. Samkeppnismarkaðurinn með fasteignalán hér á landi er mjög virkur og heldur vaxtamun á slíkum lánum niðri. Auk bankanna lána lífeyrissjóðir og sparisjóðir til fasteignakaupa eða um tuttugu lánveitendur í það heila. Lítill kostnaður er við það að endurfjármagna og skipta um lánveitanda og endurspeglast þessi virka samkeppni í greinanlegum breytingum á markaðsstöðu banka annars vegar og lífeyrissjóða hins vegar í fasteignalánum frá einum tíma til annars.
Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins.