Óðinn fjallaði á fimmtudag um óþarfa vaxtahækkun á miðvikudag, grein Bergþórs Ólason um Sjálfstæðisflokkinn í Morgunblaðinu og skaðann sem pólitísk öfl, ekki síst Vinstri grænir, hafa valdið okkur með því að koma í veg fyrir orkuuppbyggingu á Íslandi.

Hér má sjá hluta af pistlinum en áskrifendur geta lesið hann hér.

Vaxtayfirskot Seðlabankans og skaðinn af VG

Hraðar vaxtahækkanir Seðlabankans hafa kælt allan almenna markaðinn. Verð á fasteignum mun lækka skarpt næstu mánuðina. Ekki bara að raunvirði, heldur nafnvirði.

Það er nefnilega þannig að einstaklingarnir ákvarða kaup á fasteignum ekki bara út af vöxtunum. Heldur einnig fjölmörgum öðrum aðstæðum í efnahagslífinu. Það er öllum orðið ljóst að það er dimmt yfir efnahagslífi heimsins, hrun á hlutabréfamörkuðum utan auðvitað verðbólgunnar.

En Seðlabankinn vill vera alveg viss. Sá vilji um vissu mun valda ýktari sveiflum á markaðnum. Bara ef blessaður fasteignamarkaðurinn fengi um stund að vera í friði fyrir misráðnum ákvörðunum opinberra embættismanna, bæði hjá borg og ríki.

***

Meðvirkni seðlabankastjóra

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, spurði Ásgeir Jónsson afar brýnnar spurningar. Hvort bankinn teldi ríkisfjármálin og peningamálastjórnun ganga í takt. Hvort fjárlagafrumvarp fyrir 2023 samrýmist því markmiði að ná tökum á verðbólgunni.

„Það liggur náttúrlega fyrir að ríkissjóður tók á sig miklar byrgðar á Covid tímanum. Og einhverju leyti tók ríkissjóður áfallið af heimilunum. Að miklu leyti. Þannig að það er erfitt að vinda því til baka. Við hefðum auðvitað vilja sjá meira. En fjárlögin eru jákvæð að mörgu leyti. Að einhverju leyti er hemill á útgjöldum.“

Óðinn sér ekki þennan hemil. Og satt besta að segja trúir Óðinn því ekki að Ásgeir sjái hann heldur.

Það er mikil meðvirkni hjá Seðlabankastjóranum að vorkenna ríkisstjórninni og meirihlutanum á Alþingi að vinda ofan af Covid útgjöldum. En ef það væri eini vandinn við fjárlögin þá værum við í Paradís. Þó ekki skattaparadís því leitun er að því landi sem er með eins háa skatta og eru hér.

Staðreyndin er nefnilega sú að ríkisstjórnin ætlar að eyða 79 milljörðum til viðbótar við það sem var Covid útgjöld og Ásgeir segir að erfitt sé að vinda til baka.

Það er því enginn hemill. Ekki nokkur einasti. Fjöldi ríkisstarfsmanna vex eins og arfi. Seðlabankinn ætti þar, ásamt öllum opinberum stofnunum, að líta í sinn eigin barm.

Óðinn er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út á fimmtudag, 6. október 2022.