Það ber ekki vott um sérlega vönduð vinnubrögð þegar blaðamenn enduróma dylgjur og gróusögur sem eiga sér ekki nokkra stoð í raunveruleikanum. Í nýjasta tölublaði Heimildarinnar er að finna viðtal Freys Rögnvaldssonar við Jón Guðna Ómarsson sem tók við stjórn Íslandsbanka á dögunum.

Í viðtalinu greinir Freyr frá því að Heimildinni hafi borist fjölda ábendinga um spillingu eftir síðasta útboð ríkisins á Íslandsbanka og meint náin tengsl Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og Jóns Guðna og mátti helst skilja það sem svo að þeir hafi bundið saman varnarleik Stjörnunnar í Trópí-deildinni á tíunda áratugnum og væntanlega vélað um örlög Íslandsbanka á sama tíma. Í viðtalinu segir:

Þrátt fyrir að hafa báðir spilað fótbolta með Stjörnunni í meistaraflokki lágu leiðir Jóns Guðna Ómarssonar og Bjarna Benediktssonar ekki saman á grasinu. Í eftirleik útboðs hlutar ríkisins í Íslandsbanka, ekki síst eftir að sátt bankans við Fjármálaeftirlitið var gerð opinber, fóru ýmsir orðrómar á kreik um tengsl og spillingu. Þannig barst Heimildinni fjöldi ábendinga um meint náin tengsl Jóns Guðna við Bjarna Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra. Byggðu þær ábendingar helst á því að þeir Jón Guðni og Bjarni hefðu verið samherjar í meistaraflokki Stjörnunnar í knattspyrnu og leikið þar saman á tíunda áratugnum.

Þetta er hins vegar mjög ofsögum sagt. Vissulega léku bæði Jón Guðni og Bjarni með Stjörnunni, Bjarni 73 leiki í allt. Leikir Jóns Guðna urðu hins vegar aðeins fjórir, tveir sumarið 1995 í 2. deild Íslandsmótsins og tveir sumarið eftir, í Sjóvá-Almennra deildinni. Síðustu leikir Bjarna voru hins vegar í Trópí-deildinni árið 1994, enda lenti hann í alvarlegum meiðslum það ár. Í leik gegn KR lenti hann í harðri tæklingu sem olli því að hann lék ekki framar fótbolta, þó hann hafi sumarið eftir, 1995, verið í hópi Stjörnunnar enda var Bjarni þá enn að vonast eftir því að jafna sig af meiðslunum. Það gerðist hins vegar ekki.Spurður hvort hann hafi heyrt af þessum kenningum, um hin miklu meintu tengsl sín við Bjarna, svarar Jón Guðni því glottandi til að það hafi hann ekki gert. „Nei, þetta er í fyrsta skipti sem ég heyri þessa tengingu. Mér finnst þetta mjög skemmtilegar pælingar, hann er held ég 6 eða 7 árum eldri en ég, þannig að ég held að ég hafi aldrei mætt á eina æfingu með honum.“

Það sætir furðu að blaðamaðurinn noti viðtalið sem vettvang til þess að dreifa þessari dellukenningu sem á augljóslega við engin rök að styðjast. Ekki þarf annað en að fara inn á heimasíðu Knattspyrnusambands Íslands til að komast að þeirri staðreynd. Leikurinn virðist eingöngu gerður til að gera viðmælandann tortryggilegan.

Í ljósi þessa kæmi ekki á óvart að einhverjir fjölmiðlar gangi enn lengra í þessum efnum og fari að fabúlera um Íslandsbankaútboðið og Lindarhvol út frá þeirri staðreynd að við upphaf aldarinnar lágu leiðir Steinars Þórs Guðgeirssonar lögmanns og Jóns Gunnar Jónssonar, forstjóra Bankasýslunnar, saman. Þá var Steinar Þór formaður knattspyrnudeildar Fram og um tíma þjálfari og á sama tíma annaðist hinn fjölhæfi sýslumaður markmannsþjálfun meistaraflokks Safamýrarpiltanna.

***

Annað vakti athygli í viðtalinu. Þar lætur blaðamaður í veðri vaka að undirstöðu viðskipta á íslenskum fjármálamarkaði sé að finna í hádegisverðarboðum þar sem áfengi er haft við hönd. Þannig spyr blaðamaður bankastjórann:

Þannig að það verður sett stopp á blauta hádegisverði? Eru þeir staðreynd í fjármálakerfinu?„Ég náttúrlega heyri eitthvað af því en svo sem þekki það ekki mikið og hef held ég aldrei farið í slíkan sjálfur.“ „Þetta er þér sem sagt ekki fullkomlega framandi þegar ég nefni það, þú hefur heyrt af svoleiðis viðskiptasamböndum og samtölum sem fara fram undir þeim kringumstæðum að menn eru að borða saman og hafa vín um hönd?“„Ég held að það þekkist í öllum geirum atvinnulífsins, bæði hérlendis og erlendis.““

Það einskorðast ekki við fólk sem starfar í fjármálageiranum að það geri sér stundum glaðan dag með samverkafólki sínu eins og Jón Guðni bendir á. Og ekkert er óeðlilegt við það og er spurning blaðamannsins alls engin spurning heldur dylgja dulbúin sem dyggðaumvöndun.

***

Þrátt fyrir að enginn skortur sé á stórtíðindum þessar vikurnar lætur gúrkutíðin á sér kræla. Þannig sagði þulur hádegisfrétta Ríkisútvarpsins í síðustu viku frá því að tannheilsa íslenska heimskautarefsins væri misjöfn á milli landshluta. Þetta gerði hann án þess að flissa og verður það að teljast nokkuð vel af sér vikið.

Þetta er hluti úrFjölmiðlapistli sem birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pistilinn í heild sinni hér.