Morgunblaðið sagði á dögunum frá undarlegum vinnubrögðum matvælaráðherrans Svandísar Svavarsdóttur og Páls Gunnars Pálssonar, forstjóra Samkeppniseftirlitsins.

Í frétt blaðsins kom fram að Seðlabanki Íslands, Skatturinn og Fiskistofa hafi verið gerð aðilar að samningi milli ráðuneytisins og eftirlitsins um athugun á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi án þess að samningurinn hafi verið borinn undir stofnanirnar sjálfar. Stofnanirnar voru ekki upplýstar um aðild sína að samningnum fyrr en eftir að Svandís og Páll Gunnar voru búin að undirrita hann og leitað var til þeirra vegna yfirlestrar fréttatilkynningar sem var í smíðum.

Undarleg vinnubrögð af hálfu Svandísar og Páls Gunnars er svo sem engin nýlunda en viðvaningshátturinn í vinnubrögðum í umræddu máli er með hreinum ólíkindum.

Hrafnarnir velta því vöngum yfir hvort nágrannarnir í Borgartúninu hafi í fleiri tilfellum gert hinar ýmsu stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga aðila að samningum án þess að bera það undir viðkomandi.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.