Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur fullt í fangi að finna verkefni handa þeim óragrúa fjölda sem starfar í bankanum eftir að hann sameinaðist við Fjármálaeftirlitið. Til þess að hafa ofan fyrir starfsmönnum hefur Seðlabankinn fengið þá til að þróa nýja smágreiðslulausn til viðbótar við alla hinar greiðslulausnirnar sem standa fólki til boða.

Þrátt fyrir að hver einasti sérfræðingur sem hefur nokkurt vit á greiðslumiðlun hafi bent á þetta sé fullkomlega tilgangslaust og kostnaðarsamt eru stjórnvöld komin á vagninn.

Samkvæmt vinnuhópi Katrínar Jakobsdóttir forsætisráðherra er þessu smágreiðslukerfi ætlað að tryggja að Íslendingar geti keypt litla kók í gleri og lakkrísrör þó svo að ragnarök standi yfir. Hrafnarnir fagna þessu framtaki og vilja að Seðlabankinn fari alla leið með þessi áform.

Vinnuhópurinn hefur viðrað þá hugmynd að greiðslumiðlunin styðjist við QR-kóða sem nýtur hvarvetna mikilla vinsælda. Hrafnarnir telja að Seðlabankinn eigi frekar að gefa út greiðslukort í tengslum við nýju lausnina og eins og aðrir bankar og vera með vildarpunktakerfi. Slíkt kerfi nefnist Fríða hjá Íslandsbanka og því væri ekki úr vegi að það fengi nafnið Rannveig til heiðurs Rannveigu Sigurðardóttir varaseðlabankastjóra.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins en þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun.