Gengi hlutabréfa í Högum hefur hækkað um 9,8% undanfarna viku. Við lokun markaða miðvikudaginn 1. nóvember fékkst hver hlutur í félaginu á 34,05 krónur á hlut, en við lokun markaða í gær var hlutabréfaverðið komið upp í 37,25 krónur.

Hagar hafa verið að kaupa eigin hluti í samræmi við endurkaupaáætlun félagsins, sem hrint var í framkvæmd þann 14. ágúst síðastliðinn. Frá þeim tíma hefur hlutabréfaverð félagsins hækkað um 5,7%.

Endurkaupaáætluninni er nú lokið, en Hagar hafa keypt samtals 25 milljónir hluta í félaginu. Kaupverð hinna keyptu hluta nemur samtals 891,6 milljónum króna.

Frá opnun Costco þann 23. maí síðastliðinn hefur gengi bréfa í Högum lækkað um tæplega þriðjung.