Hagnaður samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur nam 12 milljörðum króna á rekstrarárinu 2021. Það er töluverð aukning frá árinu 2020 þegar hagnaðurinn nam rúmlega 5 milljörðum króna. Innan samstæðunnar eru, auk móðurfélagsins, Veitur, Orka náttúrunnar, Ljósleiðarinn og Carbfix.

Ársreikningur samstæðunnar var samþykktur af stjórn í dag, en lagt er til að greiddur verði arður til eigenda Orkuveitunnar sem nemi fjórum milljörðum króna. Eigendur OR eru Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð.

2,6 milljarðar í dráttarvexti

Orkuveitan greiddi um 2.578 milljónir króna í vaxtagjöld vegna uppgjörs gjaldmiðlasamninga sem félagið gerði við Glitni á árunum 2002 til 2008. Þrotabú Glitnis höfðaði mál í október 2012 vegna óuppgerðu samninganna. Héraðsdómur dæmdi Glitni í vil sumarið 2020 og málinu lauk í janúar síðastliðnum þegar Hæstiréttur synjaði Orkuveitunni um áfrýjunarleyfi.

Sjá einnig: OR gert að greiða Glitni yfir 3 milljarða

Við þetta bar Orkuveitu Reykjavíkur að greiða þrotabúinu um 740 milljónir auk dráttarvaxta, eða alls um 3,4 milljarða. Orkuveitan hafði þegar gjaldfært 740 milljónir vegna málsins en færði eftirstöðvar kröfunnar til gjalda í árslok 2021. Undir öðrum skammtímaskuldum Orkuveitunnar í árslok 2021 námu gjaldfallnir afleiðusamningar um 3.335 milljónum króna.

Rekstrarkostnaður lækkar milli ára

Rekstrarkostnaður OR samstæðunnar lækkaði á milli áranna 2020 og 2021. Kostnaðurinn nam rúmum 18 milljörðum króna á árinu 2021 samanborið við rúma 19 milljarða árið áður.

Á sama tíma hækkaði heimsmarkaðsverð á áli sem skilaði Orku náttúrunnar auknum tekjum af raforkusölu til stóriðju. Rekstrartekjur OR voru tæplega 52 milljarðar króna á árinu 2021, samanborið við rúmlega 48 milljarða árið áður. Raunverð á sérleyfisþjónustu Veitna lækkaði lítillega á árinu.

Rekstrarhagnaður samstæðunnar nam 20 milljörðum á árinu 2021. Það er rúmlega 20% aukning á milli ára, en rekstrarhagnaðurinn var 16 milljarðar árið 2020.

Bjarni Bjarnason, forstjóri OR:

„Nú þegar við sjáum út úr faraldrinum er mér efst í huga þakklæti til starfsfólks fyrirtækjanna í Orkuveitusamstæðunni. Á síðustu tveimur árum vitum við ekki um neinn brest á okkar mikilvægu grunnþjónustu sem rekja megi til faraldursins og við vitum ekki um neitt tilvik hópsýkingar meðal starfsfólksins. Á sama tíma höldum við traustum tökum á rekstrinum þannig að hagstæð ytri skilyrði skila sér fljótt og vel í afkomu fyrirtækjanna, almenningi til hagsbóta.“