Sjóvá sker sig frá hinum tryggingafélögunum að því leyti að mikill vöxtur hefur verið í iðgjöldum á milli ára. Á fyrstu sex mánuðum ársins nam vöxturinn 17% miðað við sama tímabil í fyrra. Hjá VÍS nam vöxturinn 0,1% og hjá TM var 2% samdráttur.

Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár, segir mjög jákvætt að vátryggingareksturinn hafi skilað góðri afkomu. Ástæðan sé kröftugur iðgjaldavöxtur og hagstæð tjónaþróun, en engin stórtjón urðu hjá félaginu á fyrstu sex mánuðum ársins. Segir hann vert að benda á að í fyrra hafi einn gjalddagi í ökutækjatryggingum einstaklinga verið felldur niður og kostnaður vegna þessa hafi numið 650 milljónum króna.

„Iðgjöld halda áfram að vaxa á einstaklingsmarkaði en vel hefur gengið að stækka stofninn undanfarið og á fyrirtækjamarkaði sjáum við viðsnúning á milli fjórðunga og ára eftir samdrátt undanfarið,“ segir Hermann. „Iðgjaldavöxtur á fyrirtækjamarkaði er bæði tilkominn vegna nýrra viðskipta og ánægjulegrar þróunar hjá ferðaþjónustuaðilum sem eru í viðskiptum við okkur, þar sem sumarið fór vel af stað.“

Að sögn Hermanns nam ávöxtun á eignasafni félagsins 10% á fyrstu sex mánuðum ársins. Þróun á eignamörkuðum var hagstæð og töluvert umfram væntingar.

„Horfum fyrir árið 2021 hefur verið breytt lítillega hvað varðar afkomu af vátryggingastarfsemi fyrir skatta, úr 2.100 milljónum króna í um 2.200 milljónir, en við gerum ráð fyrir að samsett hlutfall verði óbreytt, um 92%. Horfum til næstu 12 mánaða hefur verið breytt þannig að afkoma af vátryggingastarfsemi fyrir skatta verður um 2.500 milljónir króna í stað 2.200 milljóna áður og samsett hlutfall verður um 91% í stað 92%. Við erum að jafnaði að gera ráð fyrir um 5% ávöxtun á eignasafn félagsins á ársgrundvelli.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .