Bílar sem urðu eldi að bráð á hafi úti gætu valdið Volkswagen samstæðunni tjóni upp á um 155 milljónir dala, eða sem nemur ríflega 19 milljörðum króna. Eldurinn braust út um borð í flutningaskipinu Felicity Ace við strendur Asóreyja, sem eru hluti af Portúgal, á dögunum. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg .

Um 4.000 bílar á vegum Volkswagen samstæðunnar eru um borð í skipinu. Auk Volkswagen bíla eru lúxusbílar frá lúxusbílavörumerkjum á borð við Porsche, Audi, Bentley og Lamborghini um borð, en öll þessi vörumerki eru undir hatti Volkswagen samsteypunnar.

Skipið var á leið frá Þýskalandi til Bandaríkjanna er eldurinn braust út, en björgunaraðilum tókst að koma öllum starfsfólki skipsins frá borði heilum á húfi.

Alls nemur verðmæti vara um borð í skipinu 438 milljónum dala, eða sem nemur um 55 milljörðum króna. Samkvæmt frétt Bloomberg nam þar af virði bíla sem finna mátti um borð í skipinu um 401 milljón dala.