Fjárfestingarsjóðurinn Hipgnosis, sem sérhæfir sig í tónlistariðnaðinum og hugverkarétti honum tengdum, er nú undir pressu frá hluthöfum að greina nánar frá fjárfestingu, sem er talin hljóða upp á 150 milljónir dala, í tónlistarsafni Neil Young eftir að tónlistarmaðurinn ákvað að fjarlægja öll lögin sín af streymisveitunni Spotify. Hlutabréf Hipgnosis hafa fallið um 4% frá því í byrjun síðustu viku. The Times greinir frá.

Margir hafa furðað sig á að Young hafi getað að eigin frumkvæði fjarlægt tónlistina af Spotify í ljósi þess að hann seldi 50% af útgáfurétti af lagasafni sínu til Hipgnosis, sem er hluti af FTSE 250 vísitölunni, í janúar 2021. Kaupverðið var ekki gefið upp en talið er að það hafi numið hátt í 150 milljónir dala eða um 19 milljarða króna.

Þegar Hipgnosis tilkynnti um kaupin á sínum tíma kom fram að sjóðurinn hefði eignast helmingshlut í útgáfurétti á lagasafni Young sem inniheldur 1.180 lög. Hins vegar var ekki minnst á hvað yrði um svokölluð masterréttindi. Talið er að Young hafi haldið þessum réttindum sem gefa honum stjórn á því hvar tónlistin er spiluð. Sjóðurinn vildi ekki tjá sig um málið en þegar samningurinn var tilkynntur á sínum tíma sagði framkvæmdastjóri Hipgnosis að tónlistin yrði einungis seld á forsendum Young, sem hefur verið mótfallinn því að lögin sín séu notuð í auglýsingum.

„Þrátt fyrir að eiga 50% af útgáfuréttinum, þá virðist sem að Hipgnosis stjórni ekki hvernig lögin eru neytt,“ skrifar greinandi hjá Stifel í bréfi til viðskiptavina. Hann sagði einnig að Hipgnosis, sem hefur safnað meira en milljarði punda frá fjárfestum til að fjárfesta í lagasöfnum, gæti bætt sig verulega með því að upplýsa hluthafa sína betur um þessi mál.

Stórafmæli vinsælustu platna Young

Umræddur greinandi telur líkur á því að Hipgnosis, sem er skráð í London kauphöllina, þurfi að færa niður virði fjárfestingarinnar þar sem Young myndi líklega ekki gefa sig við Spotify.

„Frá sjónarhóli Neil Young, um leið og þú hefur tekið siðferðislega ákvörðun líkt og þessa þá verður erfitt fyrir hann að snúa aftur á vettvanginn án þess að Spotify geri eitthvað á móti. Ef þessar deilur vara í nokkurn tíma, þá myndum við gera ráð fyrir því að verðmæti lagasafnsins rýrni,“ skrifar greinandinn.

Í desember síðastliðnum sagðist Hipgnosis vænta þess að þetta yrði gott ár fyrir tónlistarsafn Young þar sem vinsælustu plöturnar hans, Harvest og Harvest Moon, fagna annars vegar 50 ára afmæli og hins vegar 30 ára afmæli.

Mitchell og Nash líka í hart við Spotify

Á mánudaginn í síðustu viku skrifaði hinn 76 ára Neil Young opið bréf til Spotify þar sem hann hótaði að fjarlægja tónlist sína af streymisveitunni ef The Joe Rogan Experience, eitt vinsælasta hlaðvarp heims, yrði ekki tekið niður. Young sakaði Spotify um að dreifa villandi upplýsingum um bóluefni en mánuði áður höfðu 270 læknar beðið streymisveituna um að bregðast við villandi upplýsingum um Covid-19 vegna hlaðvarps Rogan.

Spotify brást við með loforðum um betri upplýsingagjöf til hlustenda um Covid en studdi þó Rogan. Young ákvað því að fjarlægja tónlistina sína af streymisveitunni á miðvikudaginn síðasta. Kanadíska þjóðlagasöngkonan Jodi Mitchell hefur fylgt í fótspor hans og fjarlægt sína tónlist af Spotif. Graham Nash hefur einnig lagt fram beiðni til Spotify um að láta fjarlægja tónlistina sína af streymisveitunni.