Fiskeldisfyrirtækið Arctic Sea Farm var rekið með um 23 milljóna króna tapi á síðasta ári og dróst tapið saman frá fyrra ári er tap nam ríflega 47 milljónum króna.
Tekjur nær tvöfölduðust, úr tveimur milljörðum árið 2019 í 3,7 milljarða í fyrra. Rekstrarhagnaður nam níu milljónum króna en árið áður nam rekstrartap 14 milljónum króna.
Eignir námu tæplega 9,8 milljörðum króna í lok síðasta árs og eigið fé nam ríflega sjö milljörðum króna. Þá námu skuldir fiskeldisfyrirtækisins tæplega 2,7 milljörðum króna.
Laun og launatengd gjöld námu 295 milljónum króna og jukust um ríflega 35 milljónir króna milli ára, en að jafnaði störfuðu 28 hjá félaginu í fyrra en 20 árið áður.
Arctic Sea Farm er nær alfarið í eigu fiskeldisfyrirtækisins Arctic Fish á Ísafirði. Stein Ove Tveiten er framkvæmdastjóri Arctic Fish, en félagið var skráð í kauphöllina í Ósló fyrr á þessu ári.