Hagnaður fyrirtækja í fiskveiðum og vinnslu fyrir afskriftir, fjármagnskostnað og tekjuskatt (EBITDA) sem hlutfall af heildartekjum sjávarútvegs jókst lítillega á milli áranna 2019 og 2020. Hlutfallið (án milliviðskipta) hækkaði úr 30,6% í 31,9% frá árinu 2019. Þetta kemur fram í gögnum Hagstofunnar .

Hreinn hagnaður (EBT) fyrirtækja í fiskveiðum og vinnslu, samkvæmt árgreiðsluaðferð, nam 49 milljörðum króna árið 2020, eftir að gjaldfærð hefur verið árgreiðsla að fjárhæð 29 milljarða. Ef tekið er mið af hefðbundinni uppgjörsaðferð nam hagnaðurinn 28 milljörðum króna eða 11,5% af tekjum árið 2020 borið saman við 42 milljarða króna eða 17,4% af tekjum árið 2019.

Útflutningsverðmæti sjávarútvegs í heild jókst um tæp 3,7% og nam tæpum 270 milljörðum króna á árinu 2020. Auk þess hækkaði verð útflutningsvara í sjávarútvegi um 9,1% á meðan magn útfluttra sjávarafurða dróst saman um 5%.

Heildareignir sjávarútvegarins voru, samkvæmt efnahagsreikningi, tæpir 830 milljarðar króna í árslok 2020. Heildarskuldir voru rúmir 496 milljarðar króna, sem er hækkun um 4%. Eigið fé var því tæpir 333 milljarðar króna.