S4S-samstæðan hagnaðist um 400 milljónir króna á síðasta ári, en árið áður nam hagnaður félagsins 251 milljón króna. Rekstrartekjur námu 4,9 milljörðum króna, samanborið við 4,2 milljarða króna árið áður. EBITDA nam 643 milljónum króna og jókst um 166 milljónir króna frá fyrra ári. Eignir félagsins námu 2,1 milljarði króna í lok síðasta árs og eigið fé 942 milljónum króna.

S4S rekur verslanirnar Steinar Waage, Kaupfélagið, Ecco, Skechers og Toppskóinn, ásamt AIR verslununum og Ellingsen í Reykjavík og á Akureyri. Dótturfélag fyrirtækisins er S4S tæki ehf. sem rekur tækjasölu og verkstæði BRP Ellingsen.

Nýlega var greint frá því að framtakssjóðurinn Horn IV hefði fest kaup á 22% hlut í S4S en um síðustu áramót átti forstjórinn Pétur Þór Halldórsson 40% hlut í félaginu og átti félag Bjarna Ármannssonar Sjávarsýn jafn stóran hlut. Þá áttu framkvæmdastjórinn Hermann Helgason og Georg Kristjánsson hvor um sig 10% hlut.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Pétur frábært ár að baki hjá félaginu. „Lykillinn að þessum árangri er starfsfólk okkar sem leggur sig fram alla daga við að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu. Við ætlum okkur að vaxa enn frekar á næstu árum, bæði með innri og ytri vexti. Við höfum sömuleiðis gefið það út að við ætlum okkur að skrá félagið á markað. Allt þetta, ásamt því að vera rótgróið fyrirtæki með sterk vörumerki og farsæla sögu, gerir það að verkum að fjárfestar hafa sýnt vegferð okkar mikinn áhuga. Við erum hins vegar ekkert að flýta okkur og höfum því sagt að skráning geti verið innan fárra ára."

Hann segir margt spennandi í gangi hjá S4S þessi misserin, enda fyrirtækið stórt og í mörg horn að líta. „Við vorum að fá framtakssjóðinn Horn IV inn í hluthafahópinn en það að hafa farið í gegnum það ferli og áreiðanleikakannanir sem því fylgdi er gríðarleg viðurkenning fyrir okkar rekstur. Innkoma sjóðsins styrkir sömuleiðis okkar stöðu til frekari vaxtar.“

Næst á dagskrá sé opnun nýrrar verslunar fyrir Ellingsen-BRP á Vínlandsleið þar sem gert sé ráð fyrir glæsilegum sýningarsal fyrir ferðatækin. „Ellingsen-BRP er með fjórhjól, sexhjól, vélsleða, buggy- og vinnubíla og fleira. Þar mun sömuleiðis vera í boði að versla rafhjól en sá þáttur hefur vaxið nokkuð hjá okkur síðustu ár samhliða aukinni umhverfisvitund, enda eru Íslendingar farnir að sjá að þessi ferðamáti getur gengið orðið nánast allt árið um kring. Ellingsen og Rafhjólsetur Ellingsen munu þó áfram vera staðsettar út á Granda eins og áður svo viðskiptavinir geta gengið að þeim vísum áfram.

Hjá öðrum verslunum í okkar samstæðu er sömuleiðis margt spennandi í gangi tengt netverslun, framtíðarverslun, rafrænni vegferð  og neytendaupplifun, sem við munum halda áfram að þróa. Enda skiptir það okkur öllu máli að viðhalda áfram þeirri góðu þjónustu sem hefur skilað okkur þessum árangri hingað til.“