Áætlað er að samdráttur í Úkraínu verði 45% á þessu ári, vegna innrásar Rússa. Til samanburðar verði samdrátturinn 11% í Rússlandi. Þetta kemur fram í skýrslu Alþjóðabankans um efnahagshorfur í þróunarríkjum í Evrópu og Mið-Asíu, eða löndin í hinu svokallaða ECA-svæði.
Stríðið í Úkraínu hefur einnig haft mjög neikvæð áhrif á nýmarkaðs- og þróunarríki í álfunni sem meðal annars treysta á innflutning hveitis frá ríkjunum tveimur.
Anna Bjerde hjá Alþjóðabankanum segir innrás Rússa hafa eyðilagt innviði í Úkraínu og að styðja þurfi landið fjárhagslega til að halda hagkerfinu gangandi.
Asli Demirgüç-Kunt, aðalhagfræðingur Alþjóðabankans í málefnum Evrópu og Mið-Asíu, segir að stríðið og heimsfaraldurinn hafi sýnt hvernig krísur geti valdið miklum og útbreiddum efnahagslegum hremmingum.
Alþjóðbankinn hefur nú þegar veitt Úkraínu 925 milljón dala stuðning meðal annars til að greiða laun heilbrigðisstarfsfólks og fjármagna félagslega kerfið. Bankinn mun þannig veita landinu samtals þrjá milljarða dali í stuðning á næstu mánuðum.
Í skýrslu bankans segir að innrásin hafi nú þegar skapað stærstu flóttamannakrísu í Evrópu frá seinni heimsstyrjöld.