Að hámarki fimmtíu mega koma saman samkvæmt nýrri reglugerð um sóttvarnaaðgerðir. Aðgerðirnar taka gildi strax á miðnætti. Heimilt verður að efna til allt að 500 manna viðburða með notkun á hraðprófum. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Aðrar aðgerðir eru nokkuð hefðbundar. Eins metra regla verður í gildi og þar sem ekki er hægt að viðhafa hana skal nota sóttvarnagrímu. Sundlaugar og líkamsrækstarstöðvar mega hafa opið en mega aðeins taka við 75% af heildarfjölda samkvæmt starfsleyfi.
Þá ber að loka veitingastöðvum og stöðum með vínveitingaleyfi fyrir nýjum viðskiptavinum á slaginu 22.00. Allir gestir skulu fara út af stöðunum klukkan 23.00 og þá verður aðeins heimilt að selja vín til sitjandi gesta. Skylt verður að halda skrá yfir alla gesti og óheimilt verður að halda einkasamkvæmi á stöðum með vínveitingarleyfi eftir klukkan 23.00.
Meðal röksemda fyrir hertum aðgerðum er álagið á heilbrigðiskerfið en einnig sú hætta á að engar aðgerðir muni valda atvinnulífinu skaða. „Einnig vil ég benda á að með útbreiddu smiti í samfélaginu þá mun skapast sú hætta að veikindi í fyrirtækjum og atvinnurekstri mun valda verulegri röskun á allri þeirra starfsemi,“ segir í minnisblaði sóttvarnalæknis.
Um viku til tíu daga mun taka að sjá fyrstu merki árangurs af aðgerðunum að mati sóttvarnalæknis og er stefnt að því að sjö daga meðaltal smita verði kringum fimmtíu. Til að byrja með verði aðgerðirnar í gildi í þrjár til fjórar vikur. Stefna skuli síðan að því að ná víðtæku ónæmi í samfélaginu með örvunarbólusetningum sem séu forsendan fyrir frekari tilslökun.