Flyover Iceland, sem býður upp á sýndarflug úti á Granda, tapaði 509 milljónum króna á síðasta ári sem var fyrsta heila rekstrarár fyrirtækisins. Sala fyrirtækisins nam 417 milljónum króna. Félagið opnaði fyrir sýningar sumarið 2019 en afkoman var neikvæð um 235 milljónir það árið.

Flyover Iceland brást við áhrifum faraldursins með því að fækka starfsfólki, fresta fjárfestingum, semja um framlengingu á greiðslum langtímalána og fékk stuðningslán með ríkisábyrgð. Ársverkum fækkaði úr 65 í 23 á milli ára en laun og launatengd gjöld námu 247 milljónum á síðasta ári. Eignir félagsins námu 1,7 milljörðum króna, þar af voru veltufjármunir 198 milljónir. Eigið fé lækkaði um 443 milljónir frá fyrra ári og var um 336 milljónir í lok árs 2020. Hlutafé er að fullu í eigu Esja Attractions ehf.