Hlutfall svarenda könnunar Seðlabanka Íslands sem telja að taumhald peningastefnunnar sé of laust mældist 76% og hefur aldrei verið meira frá því að Seðlabankinn byrjaði með ársfjórðungslegar kannanir á væntingum markaðsaðila árið 2012. Hlutfallið hækkaði úr 56% í 76% frá síðasta fjórðungi og í könnunni þar á undan mældist hlutfall svarenda sem töldu taumhaldið of laust 33%.

Seðlabankinn leitaði til 29 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði og svör fengust frá 25 aðilum. Af þeim sögðust þrír telja taumhaldið alltof laust, sextán of laust, fimm hæfilegt og einn of þétt.

Verðbólguvæntingar hækka

Þá má líka sjá að markaðsaðilar, sem svöruðu könnuninni á dögunum 24.-26. janúar, áttu von á að verðbólga yrði að meðaltali 5% á yfirstandandi fjórðungi. Þann 28. janúar birti Hagstofan nýjustu tölur úr vísitölu neysluverðs þar sem fram kom að verðbólga mældist 5,7% í janúar.

Almennt hækkuðu verðbólguvæntingar markaðsaðila. Þeir spá því að meðaltali að verðbólga verði 4,7% á næsta ársfjórðungi, hjaðni í 4,4% á þriðja ársfjórðungi og verði 3,9% á síðasta fjórðungi ársins. Þá hækka einnig verðbólguvæntingar til tveggja, fimm og tíu ára.

Spá hærri stýrivöxtum en áður

Könnunin gefur til kynna að markaðsaðilar vænti þess að gengi krónunnar hækki á næstu misserum og að gengi evru gagnvart krónu verði 140 krónur eftir eitt ár. Í dag er gengi evrunnar gagnvart krónunni um 143 krónur.

Miðað við miðgildi svara búast markaðsaðilar við því að stýrivextir hækki um 0,5 prósentustig á þessum fjórðungi og verði því 2,5%. Þá vænta þeir að stýrivextir hækki um 0,25 prósentur í hverjum fjórðungi það sem eftir er árs og verði um 3,5% eftir ár en verði óbreyttir ári síðar. Í frétt á vef Seðlabankans segir að markaðsaðilar eigi von á hærri vöxtum en í nóvemberkönnuninni þegar þeir væntu þess að stýrivextir yrðu 2,5% eftir eitt ár og 3% að tveimur árum liðnum.

Markaðsaðilar vænta þess að launahækkanir í komandi kjarasamningalotu verði minni en í yfirstandandi lotu. Miðað við miðgildi svara gera þeir ráð fyrir að launavísitalan hækki að meðaltali um 5% á ári í næstu samningalotu en meðaltal svara var heldur hærra eða 5,5%. Svörin spönnuðu nokkuð breitt bil, allt frá 3% upp í 10% sem endurspeglar töluverða óvissu um niðurstöðu næstu kjarasamninga.