Rússneski ólígarkinn Roman Abramovich og aðrir þátttakendur í friðarviðræðum á milli Rússlands og Úkraínu, sýndu einkenni þess að hafa verið byrlað efnavopni í kjölfar friðarviðræðna í Kænugarði fyrr í mánuðinum. Þetta kemur fram í grein hjá Wall Street Journal. Heilsa Abramovich og samningamanna frá Úkraínu hefur batnað, samkvæmt WSJ .

Abramovich hefur fundað með Rustem Umerov, krímverskum Tatara og þingmanni á úkraínska þinginu. Í kjölfar fundar þeirra í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, sýndu Abramovich, Umerov og að minnsta kosti einn annar meðlimur úkraínsku sendinefndarinnar einkenni á borð við sársauka í augum og flagnandi húð á andliti og höndum.

Sjá einnig: Roman tekur þátt í friðarviðræðum.

Heimildarmenn WSJ gruna yfirvöld í Moskvu um byrlunina og segja að þar sé almennur vilji fyrir því að koma í veg fyrir friðarviðræðurnar. Samkvæmt umfjöllun The Times hefur Abramovich flogið á milli Moskvu og Kænugarðs og fundað bæði með Pútín og Selenskí. Þá hafi hann borið skilaboð þeirra á milli. Selenskí hafi ekki verið byrlað samkvæmt heimildum WSJ, en talsmaður hans segist engar upplýsingar hafa um hina grunuðu byrlun.

Sérfræðingar sem hafa rannsakað atvikið telja að einkennin séu líklega afleiðing af eitrun með efnavopni, en þetta kemur fram í umfjöllun rannsóknarblaðamanna Bellingcat . Samkvæmt Shaun Walker, blaðamanni hjá The Guardian, missti Abramovich sjónina í fjölda klukkustunda og hlaut meðhöndlun í Tyrklandi.