Ríkisstjórnin hefur því ákveðið að leggja það til við Alþingi að Bankasýsla ríkisins verði lögð niður og innleitt verði nýtt fyrirkomulag til að halda utan um eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. „Frumvarp þessa efnis verður lagt fyrir Alþingi svo fljótt sem auðið er,“ segir í yfirlýsingu formanna ríkisstjórnarflokkanna.

Þar segir að við nýja fyrirkomulagið verði lögð áhersla á ríkari aðkomu Alþingis og „að styrkari stoðum verði skotið undir að tryggja gagnsæi, jafnræði, lýðræðislega aðkomu þingsins og upplýsingagjöf til almennings“.

Yfirlýsingin kemur í kjölfar útboðs Bankasýslu ríkisins á 22,5% hlut í Íslandsbanka fyrir 52,7 milljarða króna sem fór fram fyrir rúmum mánuði. Formenn stjórnarflokkanna segjast sammála um að framkvæmd sölunnar stóð ekki að öllu leyti undir væntingum stjórnvalda, þar á meðal um gagnsæi og skýra upplýsingagjöf.

Ríkisstjórnin hyggst ekki ráðist í frekari sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka „að sinni“. Ákvörðun um að hefja söluferlið á ný verður tekin á Alþingi þegar ný löggjöf liggur fyrir.

„Ríkisstjórnin leggur hér eftir sem hingað til áherslu á óbreytt eignarhald ríkisins á hlut sínum í Landsbankanum.“

Ríkisendurskoðun hefur hafið úttekt á því hvort salan hafi samrýmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum. Stofnunin stefnir að því að niðurstaða úttektarinnar verði birt í opinberri skýrslu til Alþingis í júní. Þá hefur fjármálaeftirlit Seðlabankans hafið rannsókn á tilteknum þáttum tengdum sölunni.

Í yfirlýsingunni segir að komi fram þörf fyrir frekari rannsóknir þegar niðurstöður Ríkisendurskoðunar og Seðlabankans liggja fyrir mun ríkisstjórnin beita sér fyrir slíku á vettvangi Alþingis. Stjórnarandstaðan hefur kallað eftir að sett verði á fót sérstök rannsóknarnefnd á vegum Alþingis til að fara yfir sölumeðferðina.