Geta Landspítala til að taka á móti sjúklingum hefur verið til umræðu undanfarið, ekki síst eftir að Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, bar sjúklingafjölda nú saman við fjölda í svínaflensufaraldrinum 2009 í Silfrinu á RÚV á sunnudaginn var. Það er óumdeilt að svínaflensufaraldurinn og kórónuveirufaraldurinn eru ólíkir, en svöruðu Þórólfur og farsóttarnefnd í reynd spurningu Svanhildar?

Í læknablaðinu birtist árið 2010 fræðigrein um gjörgæslusjúklinga í svínaflensufaraldrinum þar sem einkennum þeirra sem lögðust inn á gjörgæslu vegna svínaflensu er lýst.

Í fræðigreininni kemur fram að meðalaldur gjörgæslusjúklinga í faraldrinum hafi verið 47,5 ár og að þeir sem þörfnuðust gjörgæslumeðferðar veiktust flestir mjög alvarlega. Margir þeirra lágu í 2 til 3 vikur á gjörgæslu, sumir lengur, og sá sem lengst lá var í 7 vikur á gjörgæsludeild og 12 vikur á sjúkrahúsinu.

Fram kemur að öndunarbilun vegna útbreiddrar lungnabólgu og bráðs andnauðarheilkennis hafi verið mest áberandi og að flestir sjúklingarnir hefðu þurft viðbótarmeðferð við hefðbundna öndunarvélameðferð á borð við grúfulegu í öndunarvél, fulla vöðvalömun, níturoxíð innöndun eða hjarta- og lungnavél.

Þá segir að þótt öndunarbilun hafi verið mest áberandi hjá sjúklingunum hafi margir þeirra sýnt merki um truflanir á starfsemi annarra líffæra, svo sem bráða nýrnabilun, sýklasóttarlost og truflun á storkukerfi eða meltingarvegi. Þrír sjúklinganna sem urðu fyrir truflun á nýrnastarfsemi þurftu á stöðugri blóðskilun að halda og tveir þeirra hlutu langvarandi nýrnaskaða.

Þrátt fyrir að veikindi í svínaflensufaraldri hafi almennt verið mildari en í covid, þá virðist samanburður á álagi vegna fjölda gjörgæslusjúklinga þá og nú ekki langsóttur, bæði hvað varðar meðferðir og innlagnartíma.

20 mánuðir eða 75 dagar

Þegar svínaflensufaraldurinn stóð sem hæst var ekki vitað þá hversu margir myndu leggjast inn eða hversu lengi ástandið myndi vara, á sama tíma og sjúklingum fjölgaði hratt á skömmum tíma og hátt hlutfall þeirra sem lögðust inn þurfti gjörgæslumeðferð.

Þótt Covid-faraldurinn hafi nú staðið í 20 mánuði á meðan svínaflensufaraldurinn var viðfangsefni spítalans í 75 daga, þá er það ekki svo að spítalinn hafi stöðugt verið með fjölda covid sjúklinga inniliggjandi þessa 20 mánuði.

Í fyrstu bylgju voru inniliggjandi sjúklingar með covid á spítala fleiri en 20 í 24 daga, í 76 daga í annarri bylgju og í 18 daga í þeirri þriðju. Sú þriðja var stærsta smitbylgja faraldursins en innlagnir náðu aldrei sömu hæðum og í fyrri bylgjum, enda hefur bólusetning veitt yfir 90% vörn gegn alvarlegum veikindum. Í öllu falli er ljóst að álagið sem spítalinn var undir þessa 75 daga árið 2009 er ekki álag sem hefur verið viðvarandi á spítalanum undanfarna 20 mánuði.

Svör sóttvarnalæknis og farsóttarnefndar varpa fyrst og fremst ljósi á mun á faröldrunum og sjúkdómunum almennt, en sá munur skýrir ekki mun á afkastagetunni nú og þá þegar kemur að því að taka á móti hratt vaxandi fjölda alvarlega veikra sjúklinga sem liggja á gjörgæslu vikum saman. Því svarar einkum skýringin um mun á fjölda rúma og gjörgæslurýma, en sú skýring vekur upp fleiri spurningar en svör.

Stjórnunarvandi?

Ragnar Freyr Ingvarsson, fyrrverandi yfirlæknir Covid-deildar spítalans, viðraði á samfélagsmiðlum „flippaða" hugmynd sem hann hafði heyrði frá kollega sínum á dögunum:

„Hvernig væri að aðlaga spítalann að samfélaginu en ekki öfugt?"

Það er ef til vill von að fólk spyrji sig hvernig það megi vera að um leið og innlagnir aukast að einhverju marki sé strax vikið að takmörkunum fremur en skipulagi spítalans og afkastagetu. Þjóðin fjölmennti í bólusetningar sem hafa reynst árangursríkar gegn alvarlegum veikindum, en þrátt fyrir það boðar sóttvarnalæknir takmarkanir næstu árin vegna þess að spítalinn ræður ekki við aukningu í innlögnum færri en 20 sjúklinga án þess að viðvörunarbjöllur hringi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .