Eigandi og framkvæmdastjóri einkahlutafélags vildi meina að kaup félagsins á Porsche bifreið hafi verið fjárfesting en ekki til afnota og kærði úrskurð ríkisskattstjóra að færa honum til tekna skattskyld bifreiðahlunnindi. Þann 2. febrúar síðastliðinn úrskurðaði YSKN (úrskurður nr.8/2022) að kærandi hafi haft umráð bifreiðarinnar utan vinnutíma og var kröfu hans um niðurfellingu á hinum tekjufærðu bifreiðahlunnindum hafnað.

Í bréfi umboðsmanns kæranda segir að um hafi verið að ræða sérstaka 50 ára afmælisútgáfu af Porsche 911 sem framleidd var í aðeins 1963 eintökum. Þá hefðu aðeins 150 eintök verið framleidd í upprunalegum lit og bæri þessi tiltekna bifreið þann lit. Jafnframt segir í bréfinu að engin afnot hefðu verið af bifreiðinni á þeim tíma sem bifreiðin var í eigu félagsins og að hún hefði verið notuð töluvert í myndatökum og sýningum. Meðfylgjandi bréfinu var tölvupóstur frá starfsmanni umboðsaðila Porsche á Íslandi þar sem m.a. kom fram að afmælisútgáfur Porsche 911 væru vinsælar og teldust frekar fjárfesting en ökutæki sökum verðmætaaukningar. Jafnframt sýndi kílómetramælir bílsins að hann var einungis keyrður um 16 þúsund kílómetra á fjórum árum.

Kærandi krafðist þess að úrskurður ríkisskattstjóra, um að færa honum til tekna skattskyld bifreiðahlunnindi vegna meintra ótakmarkaðra einkaafnota hans af bifreiðinni á árunum 2017 og 2018, yrði felld úr gildi. Kærandi gerði einnig kröfu um að honum yrði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði.

Í úrskurði YSKN segir að ekki verði annað ráðið en að kærandi hafi sjálfur haft ákvörðunarvald um afnot sín af bifreiðinni í einstökum tilfellum. Skýringar kæranda um að bifreiðinni hafi aðeins verið ekið um 16 þúsund kílómetra hafi ekki haft neina þýðingu.

Niðurstaðan var sú að kærandi hafi haft umráð bifreiðarinnar utan vinnutíma á árunum 2017 og 2018. Kröfu kæranda um niðurfellingu á hinum tekjufærðu bifreiðahlunnindum var því hafnað. Kröfu kæranda um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði var einnig hafnað.