Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur lækkað hagvaxtarspá sína fyrir heiminn í ár um 0,1 prósentustig í 3,3%, og spána fyrir næsta ár um 0,2 prósentustig í 3,4%, frá spá sinni í Október síðastliðnum.

Í frétt Financial Times um málið segir að versnandi horfur viðkvæms heimshagkerfisins varpi skugga á árlega alþjóðlega efnahagsþingið í Davos sem haldið er nú í vikunni. Vonir hafi staðið til þess að tala mætti fyrir sjálfbærari og samheldnari heimi, en nú verði áhyggjur af veikburða heimshagkerfinu líkast til meginumræðuefnið.

Enn er spáin hærri en hagvöxtur síðasta árs, sem nam 2,9% og hefur ekki verið lægri síðan í fjármálakrísunni fyrir rúmum áratug. Vonir hafi verið bundnar við aukinn vöxt í stórum hagkerfum á borð við Brasilíu, Indland, Tyrkland og Rússland, en hagtölur undir lok nýliðins árs hafi valdið vonbrigðum.