Tímaritið Fortune hefur birt lista yfir 50 valdamestu konurnar í bandarísku viðskiptalífi á árinu 2021. Á listanum má meðal annars finna konur sem hafa risið til áhrifa í krafti heimsfaraldurs kórónuveirunnar.

Á meðal þeirra kvenna sem þótt hafa aukið áhrif sín í faraldrinum í krafti kórónuveirunnar er Karen Lynch, forstjóri CVS Health, en hún er efst á lista Fortune eftir að hafa verið sú þrettánda áhrifamesta á árinu 2020.

Karen hefur verið forstjóri CVS í rúmt ár en félagið er það fjórða veltuhæsta í Bandaríkjunum, auk þess að vera stærsta heilbrigðisfyrirtæki landsins. Engin kona hefur leitt fyrirtæki svo ofarlega á lista stærstu fyrirtækja Bandaríkjanna, allt frá því að Fortune birti fyrst lista yfir 500 stærstu fyrirtækin fyrir 67 árum.

Karen starfaði lengi hjá sjúkratryggingafélaginu Aetna, sem CVS festi kaup á árið 2018 en hún stýrði innleiðingu Aetna inn í CVS ásamt því að leiða viðbragð sameinaðs félags í upphafi COVID-19 faraldursins.

Um það leyti sem hlutverk CVS í bólusetningu Bandaríkjamanna fór ört vaxandi var Karen ráðin forstjóri félagsins. Hún sá sér leik á borði með því að staðsetja CVS í þungamiðju viðbragða Bandaríkjamanna við faraldrinum, sem miðstöð COVID skimunar og bólusetningar.

Fyrirtækið hefur framkvæmt tugi milljóna bólusetninga og hefur um leið nýtt sér tækifærið til að kynna aðra þjónustu, á borð við kólesterólmælingu og ítarlega heilsufarsskoðun. Þessi strategía laðaði að fjölda nýrra viðskiptavina og vakti um leið athygli markaðarins.

Lynch áformar að stilla hverfisapótekaneti CVS sem fyrsta viðkomustað einstaklinga í leit að heilbrigðisþjónustu með því að breyta hundruð verslana í heilsugæslustöðvar, hverra hlutverk verður alfarið að sinna frumþjónustu sjúklinga. Heilsugæslurnar munu samanlagt geta þjónustað tugþúsunda sjúklinga á dag og losað þannig um einn þrálátasta flöskuháls heilbrigðiskerfisins.

Fleiri sigldu COVID-báruna

Rosalind Brewer, forstjóri Walgreens Boots Alliance (WBA), var sú 27. á lista ársins 2020 en vermir nú 6. sæti hans. Rosalind var áður rekstrarstjóri kaffikeðjunnar Starbucks en hóf störf sem forstjóri WBA í mars á síðasta ári. Þátttaka fyrirtækisins í bólusetningu Bandaríkjamanna hefur skipt sköpum fyrir Rosalind og viðleitni hennar til þess að snúa við rekstri fyrirtækisins.

Angela Hwang, sem leiðir líftæknilyfjaeiningu Pfizer, skipar 11. sæti listans en var áður í því 16. Hún er sögð eiga ríkan þátt í blómstrandi sölu COVID bóluefnis Pfizer, sem námu 37 milljörðum Bandaríkjadala árið 2021, eða sem samsvarar um 4,7 billjónum íslenskra króna á meðalgengi síðasta árs. Angela leiðir teymi 26 þúsund einstaklinga á sjö sviðum og þykir efni í framtíðarleiðtoga lyfjarisans.