Verðbólga á evrusvæðinu heldur áfram að hækka, en hún mældist 5,1% í janúarmánuði síðastliðnum, samkvæmt bráðabirgðatölum Eurostat , en lokatölur verða birtar 23. febrúar. Aldrei hefur verðbólgan mælst meiri á evrusvæðinu, en hún var 5% í desember og 4,9% í nóvember. Þess má geta að fyrir ári síðan, í janúar 2021, mældist verðbólgan einungis 0,9%.

Greiningaraðilar spáðu því að verðbólgan myndi hjaðna í janúar, en meðalspá hagfræðinga um ársverðbólguna  janúar var 4,4%, samkvæmt Reuters fréttastofunni.

Orkuverð leiðir áfram verðbólguna og mældist árshækkun orkuverðs 28,6% í janúar samanborið við 26% árshækkun í desember. Matur, áfengi og tóbak hækkaði um 3,6% milli ára.

Verðbólgan í Eystrasaltsríkjunum mælist töluvert meiri en verðbólgan á evrusvæðinu. Hún er 12,2% í Litháen, 11,7% í Eistlandi og 7,7% í Lettlandi. Á hinum endanum mældist 3,3% verðbólga í Frakklandi, en verðbólgumarkmið Evrópska Seðlabankans er 2,0%.

Kjarnaverðbólga (e. Core-price index), sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, mældist einungis 2,3% á evrusvæðinu í janúar, en hún mældist 2,6% í desember.