Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru tæplega 76 þúsund í nýliðnum febrúarmánuði. Þetta kemur fram í frétt á vef Ferðamálastofu.

Það er gjörbreytt staða frá síðasta ári þegar brottfarir erlendra farþega voru um þrjú þúsund talsins. Brottfarirnar í febrúar mælast nú álíka margar og árið 2015 en um helmingi færri en í febrúar árið 2019 og árið 2020.

Brottfarir Breta voru tæplega 29 þúsund í febrúar, eða um 38% af öllum brottförum frá landinu. Bretar hafa verið fjölmennasta þjóðernið í febrúar allt frá árinu 2003, með undantekningu árið 2021.

Brottfarir Bandaríkjamanna voru í öðru sæti í febrúar, 10.500 talsins, eða um 13,9% af heild. Frakkar voru í þriðja sæti með 7% af heildinni. Þar á eftir fylgja Þjóðverjar, Pólverjar og Hollendingar.

Frá áramótum hafa um 144 þúsund erlendir farþegar farið frá Íslandi en á sama tíma í fyrra voru brottfarir þeirra um 7.400 talsins. Þó er enn langt í land að ná sama fjölda og var fyrir kórónuveirufaraldurinn. Brottfarir erlendra farþega voru rúmlega 250 þúsund talsins á tímabilinu janúar til febrúar árið 2020 og 288 þúsund árið 2019.