Stjórn Íslandsbanka leggur til fyrir aðalfund bankans þann 17. mars að bankinn greiði 11,8 milljarða króna í arð vegna hagnaðar síðast árs en bankinn hagnaðist um 23,7 milljarða króna í fyrra.

Auk þess er lagt til að sett verði á formlegri endurkaupaáætlun þar sem bankanum verði heimilt að kaupa allt að 10% eigin hlutum. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að stefnt sé að því að kaupa eigin bréf fyrir um 15 milljarð króna sem samsvarar um 6% af útgefnu hlutafé bankans. Samtals gætu því um 27 milljarðar króna runnið til hluthafa bankans.

Þá er lagt til að laun stjórnarmanna Íslandsbanka hækki um 5%. Þannig fái almennir stjórnarmenn 473 þúsund krónur á mánuði en stjórnarformaður 824 þúsund krónur á mánuði og varaformaður stjórnar 588 þúsund krónur á mánuði. Því til viðbótar skuli greiða stjórnarmönnum kr. 236 þúsund til viðbótar á mánuði fyrir þátttöku í undirnefndum.

Íslandsbanki var skráður á markað síðasta sumar og samhliða því seldi ríkissjóður 35% hlut í bankanum til 24 þúsund nýrra hluthafa. Síðan þá hefur gengi bréfa bankans hækkað um 63% og er bankinn í heild um 257 milljarða króna virði. Bankasýsla ríkisins lagði nýlega til að ríkið selji stærri hlut í bankanum en ríkið á nú 65% hlut í Íslandsbanka.