Verð á tonni af áli hefur hækkað um 6% síðastliðna viku og stendur í 3.500 dölum á tonnið, í málmkauphöllinni í London, London Metal Exchange. Þetta kemur fram í grein hjá Bloomberg . Heimsmarkaðsverð á áli hefur aldrei verið hærra.

Innrás rússneskra stjórnvalda í Úkraínu hefur leitt til hærra verðs á hrávörum eins og olíu, málmi og jarðgasi vegna áhyggna af framboðsskorti hrávara. Verð á nikkel hefur hækkað um rúm 4% síðastliðna viku og stendur í 26 þúsund dölum tonnið.

Önnur mikilvæg hráefni fyrir álframleiðslu, eins og jarðgas og hráolía, hafa einnig hækkað ört að undanförnu. Verð á Brent Norðusjávarhráolíu hefur hækkað um 17% síðastliðna viku og stendur nú í rúmum 113 dölum á tunnu. WTI hráolíuverð hefur hækkað um 20% síðastliðna viku og stendur nú í rúmum 111 dölum á tunnu.

Gengi hlutabréfa rússneska álfyrirtækisins Rusal hefur lækkað um 26% í viðskiptum dagsins á hlutabréfamarkaði í Hong Kong. Rusal er stærsti álframleiðandi Rússlands en gengi bréfa félagsins hefur ekki lækkað jafn mikið síðan í apríl 2018 þegar Bandaríkjastjórn beitti viðskiptaþvingunum á hendur Rússum.