Álverð hefur hækkað um 13% síðastliðna viku og stendur nú í tæpum 4 þúsund dölum á tonnið, í málmkauphöllinni í London, London Metal Exchange. Heimsmarkaðsverð á áli hefur hækkað um 35% frá áramótum og hefur aldrei verið hærra.

Í kjölfar innrásar rússneskra stjórnvalda í Úkraínu hefur myndast skortur á hrávörum eins og olíu og gasi og hafa mikilvæg hráefni fyrir álframleiðslu hækkað ört að undanförnu. Nýverið viðraði Joe Biden Bandaríkjaforseti þá hugmynd að banna innflutning á olíu frá Rússlandi.

Verð á Brent Norðursjávarhráolíu hefur hækkað um 20% síðastliðna viku og stendur nú í rúmum 122 dölum á tunnu. Brent hráolían var komin upp í 135 dali á tunnu þegar mest lét. Verð á WTI hráolíu hefur hækkað um 23% síðastliðna viku og stendur nú í tæpum 118 dölum á tunnu. Verð á báðum hráolíum hefur hækkað um tæplega 60% frá áramótum.

Síðastliðna vikuna hefur verð á jarðgasi hækkað um 15% og verð á nikkel um 18%. Verð á nikkel stendur nú í 30 þúsund dölum á tonnið.