Hlutur Fea ehf., sem var stærsti hluthafi Play með 21,3% hlut í apríl síðastliðnum, er kominn niður í 5,9%, samkvæmt fjárfestakynningu fyrir fyrirhugað hlutafjárútboð Play. Fea eignaðist allt hlutafé í Play á síðasta ári þegar flugfélagið gat ekki greitt til baka af brúarláni sem Fea hafði veitt því.

Skúli Skúlason, stjórnarformaður Play, var eigandi alls hlutafjár Fea samkvæmt síðasta ársreikningi félagsins fyrir árið 2019. Skúli er einn eigenda flugþjónustufyrirtækisins Airport Associates og stjórnarformaður félagsins. Skúli er jafnframt framkvæmdastjóri Express sem er umboðsaðili hraðsendingafyrirtækisins United Parcel Service á Íslandi.

Sjá einnig: Selja 4 milljarða hlut í Play

Kjartan Páll Guðmundsson kemur nýr inn á listann yfir tuttugu stærstu hluthafa Play með 2,5% hlut. Viðskiptablaðið sagði frá því í október síðastliðnum að Kjartan hafði veitt Fea 70 milljónir króna lán.

Gildur ehf., í eigu Andra Sveinsson, er þrettándi stærsti hluthafi Play með 2,1% hlut. Andri er meðeigandi í Novator og einn nánast samstarfsmaður Björgólfs Thor Björgólfssonar.

Félögin Innkaupafélagið ehf. og Skinnuhúfuklettur ehf. komu einnig ný inn á hluthafalistann með sitthvorn 1,05% hlut. Innkaupafélagið er í eigu Theodórs Siemsen Sigurbergssonar, stærsta hluthafi Grant Thornton endurskoðunarfyrirtækisins. Theodór sat áður í slitastjórn Kaupþings. Global fjárfestingafélag, sem er í eigu Theodórs, lánaði Fea 15 milljónir króna á sínum tíma.

Skinnuhúfuklettur er í eigu Arnar Bjarna Eiríkssonar og Berglindar Bjarnadóttur bænda í Gunnbjarnarholti. Arnar Bjarni er eigandi alls hlutafjár Lanstólpa sem flytur inn vélar og tæki fyrir landbúnað.

Birta lífeyrissjóður er nú stærsti hluthafi flugfélagsins Play með 12,6% hlut. Á eftir Birtu kemur Fiskisund ehf. með 11,9% hlut og Stoðir með 8,4% hlut. Hlutur þessara þriggja fjárfesta er óbreyttur frá hluthafalistanum sem birtur var í apríl.

Í skýringu undir hluthafalistanum kemur fram að fyrirtækið hafi skuldbundið sig til að gefa út 33,6 milljónir hluti að nafnvirði  til nokkurra lykilstjórnenda og forstjóra, háð nýtingu valrétta. Að sama skapi hefur stjórn flugfélagsins heimild til að gefa út 13,9 milljónir hluta til viðbótar fyrir valrétti til starfsmanna. Til samanburðar verður fjöldi hluta í Play 700 milljónir í heildina, fáist full áskrift í hlutafjárútboðinu.