Mikil íbúafjölgun hefur verið hjá Árborg á undanförnum árum. Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Árborgar segir uppbyggingu innviða, samhliða uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, vera helstu áskorunina framundan.

Í haust á fyrsti áfangi nýs grunnskóla að vera tilbúinn og á síðasta ári var nýr leikskóli opnaður, en hann segir að brátt þurfi að huga að næstu skólum. „Skólarnir eru nú þegar yfirfullir og það er erfitt að halda í við íbúafjölgunina. Við þurfum að huga að því að byggja nýjan leikskóla og setja á fót byggingarnefnd til að byggja næsta grunnskóla á eftir þessum sem er að rísa núna."

Spurður um hvort uppbygging innviða nái ekki að anna uppbyggingu íbúða og að frestur gæti orðið á afhendingu íbúða segir Gísli að hættumerki séu á lofti í hið minnsta. „Við teljum okkur eiga möguleika á að greiða úr þessu en þá þarf að koma til sérstaklega skilningur frá ríki um tekjuþarfir okkar. Tekjumódelið sem ríkið býður sveitarfélögunum ræður ekki við þetta og ég tel að það þurfi að endurskoða það, sérstaklega hjá þeim sveitarfélögum sem eru í miklum vexti eins og okkar."

Mikil íbúafjölgun hefur verið í sveitarfélaginu og segir Gísli að nú sé tími til að yfirvöld marki sér stefnu og taki frumkvæði í skipulagsmálum. „Íbúum fór að fjölga mjög hratt frá og með árinu 2016 og síðan þá erum við búin að vera að reyna að ná í skottið á okkur í skipulagsmálum. Við þurfum að taka frumkvæði í að setja fram stefnu í skipulagsmálum og huga að samsetningu íbúða í hverfum.“

Skrifstofuhótel hjálpi ungum fjölskyldum

Gísli segir framundan mikla uppbyggingu á atvinnuhúsnæði í Árborg. „Við erum að fara að brjóta undir 50 hektara atvinnusvæði í miðja vegu milli Selfoss og Eyrarbakka. Enn fremur hefur Sigtún þróunarfélag opnað skrifstofuhótel í gamla Landsbankahúsinu. Í fyrsta áfanga er pláss fyrir 120 manns og fjölbreytt aðstaða, allt frá kaffihúsaborðum og upp í skrifborð með skjá og fundarherbergi."

Gísli segir mikilvægt að skapa aðstöðu í Árborg fyrir fólk sem starfar í þekkingarhagkerfinu. „Það er mikilvægt þegar fólk flytur hingað til Selfoss, að það sé aðstaða til fjarvinnu. Þetta eru meðal annars ung hjón sem flytjast hingað, með börn á leikskólaaldri og oft með vinnu í Reykjavík.

Nánar er fjallað um uppbygginguna í Árborg í fylgiritinu Fasteignamarkaður, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .