Laxeldisfyrirtækið Arctic Fish skilaði 412 milljóna íslenskra króna rekstrarhagnaði fyrir gangvirðisbreytingu á þriðja ársfjórðungi. Samtals hefur Arctic Fish, sem er í meirihlutaeigu Norway Royal Salmon (NRS), hagnast um 1,8 milljarða króna eftir skatta í ár, en þar af má rekja um helming afkomunnar til gangvirðisbreytinga.

Helsta ástæða góðrar afkomu er sögð vera hátt verð á laxi. Meðal skilaverð á seldum afurðum var um 825 krónur á kíló og salan í fjórðungnum nam um 2,4 milljarði króna. Rekstrartekjur félagsins jukust um 26% á milli ára og námu nærri 2,5 milljörðum króna, miðað við gengi krónunnar í dag. Heildarvelta fyrstu þriggja ársfjórðunganna er um 6,5 milljarðar króna.

Í fréttatilkynningu segir að Arctic Fish hafi nú slátrað meira á yfirstandandi ári en það hafi áður gert á heilu ári. Fyrstu níu mánuði ársins slátraði félagið 8.542 tonnum og gert er ráð fyrir að uppskera þessa árs verði um 11.500 tonn.