Arnar Gunnarsson hefur verið ráðinn til markaðsfyrirtækisins Digido sem sérfræðingur í gagnadrifinni markaðssetningu. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Arnar mun samkvæmt henni vinna með viðskiptavinum Digido í stafrænni vegferð þeirra í net- og markaðsmálum auk þess að taka þátt í stefnumótun.

Áður starfaði Arnar sem kynningarstjóri Forlagsins þar sem hann var meðal annars ábyrgur fyrir stafrænni markaðssetningu bókaútgáfunnar, hugmyndavinnu og markaðsherferðum. Arnar er með B.S. gráðu í sálfræði og markaðsfræði frá Háskóla Íslands.

Í tilkynningunni er haft eftir Arnari að hann sé „gífurlega spenntur að takast á við þau skemmtilegu verkefni sem framundan eru hjá Digido. Stafræn markaðssetning er sífellt að verða mikilvægari liður í markaðsaðgerðum fyrirtækja og mörg spennandi tækifæri sem þar liggja. Það er mikill heiður að vera orðinn hluti af teymi stafrænna sérfræðinga hjá Digido og hlakka ég til að nýta reynslu mína og þekkingu til að aðstoða fyrirtæki landsins í þeirra stafrænu vegferð.”

„Við hjá Digido erum ótrúlega ánægð með að Arnar sé kominn í teymið. Arnar hefur yfirgripsmikla þekkingu á þessu sviði og mikla reynslu sem mun nýtast teyminu og samstarfsaðilum okkar vel. Fyrirtæki á Íslandi eru orðin mjög meðvituð um árangursdrifna markaðssetningu og að stýra markaðsaðgerðum út frá gögnum. Við viljum halda áfram við að styðja þá þróun“ er haft eftir Arnari Gísla Hinrikssyni, annars stofnenda Digido.