Air Atlanta hagnaðist um 23,8 milljónir dollara, jafnvirði um þriggja miljarða króna á síðasta ári miðað við 5,4 milljóna dollara, eða um 730 milljóna króna, hagnað árið 2020.

Rekstrartekjur jukust úr 196 milljónum í 223 milljónir dollara á milli ára, sem samsvarar um 30 milljörðum króna. Rekstrarkostnaður jók einungis lítillega eða úr 190 milljónum dollara í 193 milljónir dollara. Því var rekstrarhagnaður tæpar 30 miljónir dollara miðað við 5,6 milljónir dollara árið 2020. Lagt er til að 23,6 milljónir dollara, sem samsvarar um það bil hagnaði ársins, verði greitt í arð til hluthafa.

Sjá einnig: Breiðþoturnar nærri banabiti Atlanta

Umtalsverð breyting hefur orðið á rekstri Atlanta í faraldrinum. Fyrir faraldurinn stóð farþegaflug undir 65-70% af tekjunum en í faraldrinum hefur félagið nær alfarið breyst á fraktflugfélag. Hefðbundið fraktflug hefur reynst afar arðbært undanfarin tvö ár þar sem stór hluti fraktflugs var áður flutt í hefðbundnu farþegaflugi, sem verið hefur í mýflugumynd í faraldrinum.

„Eftirspurn eftir afkastagetu á fraktmarkaði hefur haldið áfram að vera umtalsverð eftir að meirihluti farþegaflugvélaflotans á heimsvísu stöðvaðist árið 2020. [...] Félagið hefur því haldið áfram að fljúga meira og minna eingöngu vöruflugvélum sínum vegna ferðatakmarkana vegna COVID-19, strangs landamæraeftirlits og minni afkastagetu í farþegahlutanum." segir í skýrslu stjórnar félagsins.

„Vegna aukinna umsvifa og góðs árangurs í fraktflugi hefur samstæðunni tekist að komast í gegnum óróa síðasta árs með góðum árangri," segir í skýrslunni.

Í viðtali við Morgunblaðið í mars sagði Baldvin Már Hermannsson, forstjóri Atlanta, að síðasta ár hefði verið eitt það besta í sögu félagsins. Nú vinnur félagið að því að stækka flotann úr ellefu flugvélum í nítján.

Sjá einnig: Sjö milljarðar í arð til eigenda Atlanta

Á maí á síðasta ári keyptu hópur lykilstarfsmanna, þar á meðal Baldvin Már, 20% hlut í félaginu. Atlanta var fyrir að fullu í eigu Haru Holding, sem er í eigu fjögurra fyrrverandi og núverandi stjórnenda félagsins.

212 stöðugildi voru hjá Atlanta í fyrra miða við 214 árið áður. Laun Baldvins Más forstjóra hækka úr 498 þúsund dollurum árið 2020 í 585 þúsund dollara árið 2021 sem samsvarar um 79 milljónum króna eða um 6,6 milljónum króna á mánuði.

Eignir í árslok 2021 námu 112 milljónum dollara, eigið fé 46 milljónum dollara en skuldir 66 miljónum dollara.