Á þriðja ársfjórðungi ársins 2019, það er í júlí til og með september, mældist 3,5% atvinnuleysi í landinu að því er Hagstofa Íslands greinir frá. Atvinnuleysi jókst frá þriðja ársfjórðungi 2018 um 1,3 prósentustig og hlutfall starfandi af mannfjölda minnkaði um 2,6 prósentustig.

Um 49.600 manns töldust utan vinnumarkaðar á þriðja ársfjórðungi 2019, sem er fjölgun um 5.500 manns. Hins vegar var fjöldi starfandi fólks um 201.600 eða 78,0% af mannfjölda.

Yfir 80% atvinnuþátttaka

Atvinnuþátttaka, sem skilgreind er sem fólk í vinnu eða virkri leit að vinnu á aldrinum 16 til 74 ára, voru að jafnaði 80,8% af mannfjölda á tímabilinu, eða að meðaltali um 208,800 manns.

Þar af, eins og áður segir, töldust 3,5% vera atvinnulausir, eða 7.200 manns, en á sama tíma voru um 4.500 störf laus á íslenskum vinnumarkaði samkvæmt starfaskráningu Hagstofunnar eða um 1,9% starfa.

Vinna að meðaltali yfir 45 vinnustundir

Á þriðja ársfjórðungi 2019 voru að jafnaði 162.600 manns á aldrinum 16-74 ára við vinnu í hverri viku ársfjórðungsins og var meðalheildarfjöldi vinnustunda þeirra 40,8 klukkustundir.

Þeir sem voru í fullu starfi unnu ívið meira eða að jafnaði um 45,2 stundir á viku, en heildarfjöldi vinnustunda í hlutastarfi var að jafnaði um 24,5 klukkustundir á viku.