Fyrr í vikunni lagði Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, fram þingsályktunartillögu ásamt samflokksfólki sínu og fulltrúum minnihluta fjárlaganefndar, þar sem kallað er eftir mótvægisaðgerðum til að mæta hærri greiðslubyrði húsnæðis vegna vaxtahækkana, annars vegar með sértækri niðurgreiðslu á húsnæðiskostnaði viðkvæmra hópa og hins vegar með dreifingu húsnæðisgreiðslna til skamms tíma fyrir stærri hóp heimila.

Skuli aðgerðirnar byggjast á upplýsingum og greiningu á því hvaða hópar verða fyrir mestum búsifjum vegna vaxtahækkana og verðbólgu og er þeim sérstaklega ætlað að koma í veg fyrir að „snaraukið aðhaldsstig peningastefnu og ríkisfjármála skapi ójafnvægi meðal heimila í landinu".

Spurður út í þessa tillögu á fundinum og hvort slíkar aðgerðir væru líklegar til að draga úr biti peningastefnunnar sagði Ásgeir ljóst að vaxtalækkanir hefðu á sínum tíma verið nauðsynleg kjarabót fyrir heimilin í kjölfar þess að ferðaþjónustan féll á einni nóttu. Nú hafi hins vegar verið gengið of hratt um gleðinnar dyr og nauðsynlegt að hækka vexti, en allar eftirspurnarhvetjandi aðgerðir sem kæmu frá stjórnvöldum í kjölfarið ynnu gegn markmiði Seðlabankans.

„Það er auðvitað sjálfsagt að huga að hlutum eins og tekjuskiptingu, það er ekki okkar hlutverk að hugsa um hana en almennt séð eru laun á uppleið og við erum að reyna að hemja eftirspurn. Það er eitthvað sem aðrir mættu reyna að vinna með okkur að. Seðlabankinn er ekki hrifinn af þensluhvetjandi aðgerðum og eins og staðan er í dag er ekki jákvætt að auka eftirspurn eftir húsnæði. Það er okkar markmið samkvæmt lögum að viðhalda stöðugu verðlagi," sagði Ásgeir.

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, bætti því við að þrátt fyrir að hluti heimila ætti erfitt með að mæta vaxtahækkunum hefði kaupmáttur heimila vaxið í gegnum þessa kreppu umfram það sem hún myndi gera til lengri tíma að meðaltali.

„Auður heimilanna hefur vaxið mjög mikið, sparnaðarstigið er í sögulegum hæðum og hreint eigið fé heimilanna er í sögulegum hæðum. Á heildina litið er ekkert sem segir að heimilin eigi ekki að geta staðið það af sér að fara upp í eðlilegt ástand frá þessu lága vaxtastigi sem þau hafa búið við. Ég minni á að raunvextir eru ennþá verulega neikvæðir," sagði Þórarinn.

Eðlilegt að ræða afleiðingarnar

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Kristrún Frostadóttir að vaxtahækkun Seðlabankans hafi verið eðlileg ákvörðun í ljósi ástandsins. Það sé hins vegar hlutverk stjórnmálannaað huga að tekjuskiptingu og jöfnuði.

„Mér finnst mjög eðlilegt að þessi umræða eigi sér stað á þinginu vegna þess að vextir eru mjög breitt tól til að slá á neyslu. Við viljum auðvitað alls ekki ráðast í aðgerðir sem skapa freistni í kerfinu sem felst í því að við séum alltaf að niðurgreiða skuldir, en hins vegar verðum við að horfa til þess að þetta er að gerast mjög hratt og ekki í tómarúmi," segir Kristrún.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .