Marel kynnir til leiks á næstu misserum Marel Spectra, sem er afurð stefnumarkandi samstarfs félagsins við hátæknifyrirtækið Tomra. Marel hefur um árabil notað röntgentækni til að finna bein í matvælum, en Tomra hefur þróað annars konar sjóntækni sem gerir Marel Spectra kleift að finna plast og aðra aðskotahluti.

Með því að leiða saman hesta sína geta Marel og Tomra kynnt þessa nýju lausn mun hraðar inn á markaðinn. Ferlið hefur tekið um tvö ár en hefði líklega tekið um fimm ár hefði Marel staðið eitt að þróun hennar, að því er Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, sagði í samtali við Magnús Harðarson, forstjóra Kauphallarinnar, í vefviðburðinum „Marel á mannamáli" sem fram fór á dögunum.

Þá kom fram að verðmætin fælust aukinheldur í því að hugbúnaður Marel tryggir að nýtingarhlutfall lækki ekki við notkun lausnarinnar. Þannig auki lausnin matvælaöryggi án þess að draga úr framleiðni.

Aðskotahlutir hafa löngum verið meinsemd í matvælaiðnaði, enda hafa þeir neikvæð áhrif á upplifun neytenda og geta í sumum tilfellum skapað hættu. Aðskotahlutir geta þannig leitt til innköllunar á vöru, en innköllun fylgir meiri kostnaður en margur gerir sér grein fyrir.

6% af veltu í nýsköpun

Í Marel á mannamáli kom fram að fyrirtækið legði ríka áherslu á að efla vöruframboð sitt til viðskiptavina, hvort heldur sem er með eigin nýsköpun, með kaupum á öðrum fyrirtækjum eða stefnumarkandi samstarfi. Marel fjárfestir 6% af veltu hvers árs í nýsköpun og vöruþróun, óháð því hvernig árar. Árið 2020 nam fjárhæðin 69 milljónum evra, eða sem samsvarar um 11 milljörðum króna.

Lausnir fyrirtækisins hafa m.a. átt þátt í því að stórauka nýtingarhlutfall, bæta matvælaöryggi, tryggja rekjanleika og gert matvæli hagkvæmari fyrir neytendur. Þá hefur Marel þróað ýmsar hátæknilausnir fyrir einn iðnað sem hafa slegið í gegn í öðrum iðnaði. Má þar nefna SensorX fyrir beinaleit sem upphaflega var þróað fyrir fiskvinnslu en sló síðar í gegn í kjúklingaiðnaði, eða eins og Árni Oddur orðaði það:

„Þú borðar í dag varla kjúklinganagga í Bandaríkjunum nema Marel hafi séð til þess að þeir séu beinlausir."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .