Anna Fríða Gísladóttir hefur verið ráðin forstöðumaður markaðsmála hjá flugfélaginu Play, en hún hefur starfað við markaðsmál í um níu ár. „Play er búið að vera með framúrskarandi markaðssetningu og er með ótrúlega spennandi vörumerki. Ég hlakka mikið til að taka þátt í vexti fyrirtækisins."

Hún segir Play vera ungt vörumerki sem hafi myndað sér sérstöðu á miklum samkeppnismarkaði og að markmiðið framundan sé að halda áfram að viðhalda þeirri sérstöðu. „Það sem maður tengir við að fara til útlanda er að það á að vera skemmtilegt, eins og vörumerki Play gefur til kynna. Við viljum leggja upp úr því að gera allt ferlið sem skemmtilegast, allt frá pöntun ferðarinnar og þar til þú lendir á Keflavíkurflugvelli á leiðinni heim."

Anna Fríða starfaði áður sem „brand & campaign manager" á alþjóðavísu hjá BIOEFFECT og starfaði þar áður sem markaðsstjóri Domino's á Íslandi í sjö ár. Hún telur að reynslan af báðum vinnustöðum muni nýtast henni vel í nýja starfinu hjá Play. „Reynslan hjá BIOEFFECT, að vinna á alþjóðamarkaði fyrir íslenskt vörumerki og að læra á alþjóðlega markaðssetningu, var mjög dýrmæt fyrir mig. Starf mitt hjá Domino's snerist síðan að miklu leyti um að vera á tánum og fylgjast með því sem samkeppnisaðilar eru að gera, þar sem skyndibitamarkaðurinn á Íslandi er mjög ör og kvikur."

Hún segir mikilvægt að vera með ástríðu fyrir því sem maður er að gera. „Það er grundvöllur í öllum störfum að vera með ástríðuna, þá gerirðu hlutina vel. Það skiptir mig líka miklu máli að vinna með góðu fólki og ég hef verið afar lánsöm að vinna með frábæru fólki í fyrri störfum. Ég sé að fólkið sem vinnur hjá Play er allt frábært og ég get ekki beðið eftir að vinna með þeim.“

Áhugamál Önnu Fríðu eru mörg og mismunandi. Hún veiðir, hleypur, fer á skíði, æfir badminton og hefur gaman af því að elda. „Ég er ekkert framúrskarandi í neinu en er fín í ýmsu." Almennt þykir henni best að vera með vinum og fjölskyldu. Hún er í sambúð með Sverri Fal Björnssyni hagfræðingi og eiga þau einn strák saman.

Nánar er fjallað um Önnu Fríðu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .