Bankasýsla ríkisins segist fagna athugun Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (FME) á tilteknum þáttum tengdum útboði og starfsháttum söluráðgjafa í sölumeðferð á 22,5% hlut ríkissjóðs í Íslandsbanka enda hafi stofnunin engar heimildir til eftirgrennslan á þeim þætti söluferlisins. 

Bankasýslan sendi FME bréf í dag þar sem stofnunin segir mikilvægt að skapa traust og tiltrú á sölumeðferðina. Einnig segist Bankasýslan bjóða fram alla sína aðstoð og upplýsingar til að varpa nánara ljósi á útboðið, sé eftir því óskað.

Í bréfinu minnist Bankasýslan á að Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, varpaði því fram í Facebook færslu í gær að 117 krónu söluverðið í útboðinu kunni að skýrast af mögulegri markaðsmisnotkun í ljósi þess að á undanförnum mánuði var dagslokagengi lægst á deginum sem útboðið fór fram.

„Sérstök athygli er þó vakin á því í bréfinu, í tengslum við athugasemdir um markaðsmisnotkun, að á hluthafafundi Íslandsbanka þann 17. mars sl. var ákveðin arðgreiðsla sem nam 5,95 kr. á hlut. Arðleysisdagur var þann 18. mars sem skýrir að langmestu þá verðlækkun sem varð fyrir útboðið þann 22. mars sl.,“ skrifar Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, í bréfinu sem sent var til FME í dag.