Bensínverð á Íslandi hefur aldrei verið hærra en nú í krónum talið, samkvæmt gasvaktinni.is. Líter af bensíni hefur hækkað um allt að tíu krónur síðastliðinn mánuð, eða frá 1. febrúar.

Hjá N1 er líterinn kominn upp í 287,9 krónur, en hjá Olís 287,8 krónur. Bensínverðið er síðan komið upp í 284,9 krónur hjá ÓB og Atlantsolíu. Líterinn er á 284,8 krónur hjá Orkunni. Ódýrast er bensínið hjá Costco Iceland, 246,9 krónur líterinn. Flest fyrirtækin bjóða þó lægra verð á hluta bensínstöðva sinna.

Verðbólga mældist 6,2% í febrúarmánuði síðastliðnum, en hún hafði ekki verið meiri hérlendis frá því í apríl 2012. Árshækkun vísitölu neysluverðs án húsnæðis mældist 4,2%. Í tölum Hagstofunnar kom auk þess fram að bensín og olía hækkaði um 3,6% í febrúar.

Sjá einnig: Hráolíuverð hækkar verulega

Heimsmarkaðsverð á hráolíu hefur hækkað ört á undanförnum vikum í kjölfar innrásar rússneskra stjórnvalda í Úkraínu. Verð á Brent Norðursjávarolíu, sem notuð er í Evrópu, er nú komin upp í 112 dali á tunnu og hefur hækkað um rúm 16% síðastliðna viku. Verð á WTI hráolíu er nú komið upp í 110 dali á tunnu og hefur hækkað um rúm 16% síðastliðna viku

Sérfræðingar áætla að heimsmarkaðsverð á hráolíu muni hækka enn frekar á næstu misserum. Innrás Rússa spili þar stórt hlutverk þar sem viðskiptaþvinganirnar hafi dregið verulega úr framboði af hráolíu, en Rússar sjá Evrópu fyrir um þremur milljónum olíutunna á dag, mest allra ríkja.