Joe Biden Bandaríkjaforseti mun, á blaðamannafundi kl 15:45 í dag, tilkynna um allsherjar bann á innflutning rússneskrar olíu til Bandaríkjanna. Þetta kemur fram í grein Wall Street Journal.

Mikil umræða hefur átt sér stað á þinginu um að banna innflutning olíu frá Rússlandi. Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, hefur meðal annars kallað eftir banninu að undanförnu.

Samkvæmt heimildum Wall Street Journal mun Biden tilkynna bannið í dag. Bandaríkin og önnur vestræn ríki hafa beitt viðskiptaþvingunum á hendur Rússum í kjölfar innrásarinnar. Ríkin hafa þó að mestu leyti forðast að beita viðskiptaþvingunum á olíugeirann í Rússlandi, vegna áhyggna af hærra hráolíuverði á heimsvísu.

Hráolíuverð hefur nú þegar hækkað um 60% frá áramótum, en Brent Norðursjávarolían stendur nú í tæpum 130 dölum á tunnu. WTI hráolíuverð stendur í 125 dölum á tunnu.

Á laugardaginn síðastliðinn hvatti Zelensky, forseti Úkraínu, Biden til að leggja til innflutningsbanns á rússneskri olíu. Nú virðist vera komin nokkur stuðningur fyrir þeirri aðgerð á þinginu. Rússland er þriðji stærsti olíuframleiðandi í heimi, en 8% af olíuinnflutningi Bandaríkjanna kom frá Rússlandi.