Bandarísk stjórnvöld hafa ákveðið að selja milljón tunnur af hráolíu á dag úr varabirgðum sínum næsta hálfa árið til að stemma stigu við mikilli hækkun heimsmarkaðsverðs síðan innrás Rússlands í Úkraínu hófst. Financial Times greinir frá .
Ríkisstjórn Joe Biden Bandaríkjaforseta gaf það einnig út í gær að innlendum olíufyrirtækjum sem ekki legðu sitt af mörkum og ykju framleiðslu yrði refsað. Bensínverð þar í landi hafði þegar farið hækkandi fyrir innrásina, og hefur nú hækkað um 50% síðastliðið ár.
Aldrei áður hafa bandarísk stjórnvöld selt neitt í líkingu við það magn sem Biden tilkynnt í gær, sem nemur tæpum þriðjungi varabirgða landsins og mun þýða að magn þeirra verður það lægsta í tæp 40 ár þegar sölunni lýkur.
Biden sagði bensínverð orðið „sársaukafullt“ fyrir fjárhag heimilanna og við því yrði að bregðast, enda ætti verðið ekki að ráðast af því hvort einræðisherra ákvæði að fara í stríð. Gera mætti ráð fyrir að bensínverðið þar í landi lækkaði um eitthvað á bilinu 10 til 35 bandarísk sent á hvert gallon vegna aðgerðanna, eða sem jafngildir 3,5 til 12 krónum á lítrann, en hafa verður í huga að bensínverð er talsvert lægra vestanhafs en hér.