Seldir voru 1.403 nýir fólksbílar á Íslandi í aprílmánuði sem er um 80% aukning frá sama mánuði í fyrra. Frá áramótum hafa nú selst 4.619 nýir fólksbílar og er það aukning um 61% frá sama tímabili í fyrra. Aukning skýrist einkum af mikilli aukningu í sala nýrra fólksbifreiða til bílaleiga. Þetta kemur fram í samantekt Bílgreinasambandsins.

„Á árinu 2022 hefur sala nýrra fólksbifreiða í ökutækjaleigur aukist gríðarlega og hefur sú aukning hlutfallslega mest áhrif á aukningu í sölu nýrra fólksbifreiða á þessu ári,“ segir í samantektinni.

Sala til ökutækjaleiga hefur meira en þrefaldast það sem af er árinu miðað við sama tímabil í fyrra. Á árinu hafa verið seldar 1.844 nýjar fólksbifreiðar í ökutækjaleigu samanborið við 559 bíla í fyrra. Sú þróun hélt áfram í apríl en ökutækjaleigur keyptu 814 nýjar fólksbifreiðar í mánuðinum samanborið við 259 bíla í apríl 2021.

Einstaklingar keyptu 436 nýja fólksbíla í síðasta mánuði samanborið við 379 bíla í apríl 2021. Sala til einstaklinga hefur nú aukist um 29% á árinu. Um 5% samdráttur er á sölu til almennra fyrirtæki á árinu.

Nýorkubílar 62% seldra nýrra bíla

Hlutfall nýorkubíla (rafmagns, tengiltvinn metan)  af seldum nýjum fólksílum heldur áfram að aukast og er nú komið í rúmlega 62% en fyrir ári var þetta hlutfall 49%. Hreinir rafmagnsbílar vega nú um 35% af seldum nýjum bílum, tengiltvinn bílar um 27,2%.

„Sé horft til síðasta árs þá hefur sala á tengiltvinnbílum aukist það sem af er ári og ræður þá væntanlega mestu að fyrirsjáanlegt er að verð þeirra hækki vegna afnáms ívilnana stjórnvalda. Þar sem fjöldatakmark sem stjórnvöld settu um 15.000 bíla kláraðist nú í apríl verður áhugavert að sjá hvernig markaður bregst við þegar verð tengiltvinnbíla hækkar enn frekar og samkeppnishæfni þeirra gagnvart hefðbundnum bensín og dísil bílum breytist með hækkandi verði.“

Bílgreinasambandið segir að framangreint muni líklega setja markmið stjórnvalda í loftslagsmálum í uppnám og hægja á orkuskiptu í samgöngum.