„Á Nordica hátelinu keypti ég hálfslíters Tuborg Classic um helgina. Hann kostar í ÁTVR, með smásöluálagningunni, 379 kr. samkvæmt vefsíðunni. Sami bjór af krana kostaði 1.400 kr. á hótelinu. Það er 370% yfir smásöluverði ÁTVR. Konan sem afgreiddi mig samsinnti um að þetta væri hátt verð, en taldi það þó ekki það hæsta í borginni,“ þannig skrifar Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Facebook síðu sinni núna í morgun.

Með færslunni er tengill á frétt Viðskiptablaðsins um gagnrýni Félags atvinnurekenda á fyrirhugaða hækkun áfengisgjalds. „Menn segja skatta skýra hátt áfengisverð. Því verður ekki mótmælt að áfengisgjöld eru há á Íslandi. Maður spyr sig samt sem áður hvort hér komi ekki fleira til,“ skrifar Bjarni enn fremur.

„Það er ástæða til að fylgjast vel með verðþróun í landinu, m.a. Vegna mikilvægis þess fyrir ferðaþjónustuna að geta boðið samkeppnishæf verð. Allir þættir verða að vera teknir með í þeirri umræðu, ekki eingöngu opinber gjöld, en þau rýrna að raungildi þessi misserin (áfengisgjald fylgir ekki verðlagi),“ skrifar Bjarni í niðurlagi færslunnar.