KPMG fer með söluferlið á Sprettu, fyrirtækisins sem Stefán Karl Stefánsson, leikari, hefur byggt upp. Viðskiptablaðið greindi frá því á fimmtudaginn að til stæði að selja fyrirtækið vegna veikinda Stefáns.

Magnús Erlendsson, ráðgjafi hjá KPMG, er bjartsýnn á að það takist að ganga frá sölunni á Sprettu í apríl. „Já, ég er bjartsýnn á að við náum að ganga frá þessu í apríl. Þannig að Stefán geti séð hugarfóstrið í góðum höndum. Það er, held ég, draumurinn hans,“ segir Magnús.

Stefán hefur sjálfur verið í viðræðum við nokkra áhugasama aðila og að sögn Magnúsar mun KPMG kynna þeim félagið á næstu dögum. „Þetta er ekki stórt félag og tíminn skiptir auðvitað máli. Þannig að þetta er þétt ferli og við ætlum að reyna að hitta áhugasama núna í þessari og mögulega næstu viku. Hugmyndin er að menn skili tilboðum fljótlega eftir páska og vonandi verðum við komin með lendingu í málið gagnvart einhverjum áhugasömum kaupanda um miðjan apríl,“ segir hann