Dokobit er fyrsta fyrirtækið á Íslandi og í Eystrasaltsríkjunum og eitt af fáum fyrirtækjum í heiminum, til þess að bjóða upp á fullgilda staðfestingarþjónustu fyrir rafrænar undirskriftir. Þetta þýðir að einstaklingar og fyrirtæki geta nú með einföldum hætti sannreynt gildi rafrænna undirskrifta og innsigla og verið sannarlega viss um nákvæmni niðurstaðanna.

Samkvæmt eIDAS reglugerðinni, sem fjallar um réttaráhrif rafrænna undirskrifta í Evrópu, er staðfesting viðbótarþjónusta fyrir rafrænar undirskriftir og innsigli. Með staðfestingarþjónustunni er hægt að sannreyna gildi rafrænna undirskrifta og innsigla frá því þær voru gerðar þar til sannreyningin er framkvæmd.

„Í þessum hraða vexti á rafrænum undirskriftum er staðfestingarþjónusta farin að verða afar nauðsynleg þar sem við þurfum að geta sannreynt gildi rafrænna undirskrifta í skjölunum sem við tökum við. Ef við gerum það ekki getum við ekki verið viss um að undirskriftirnar eða innsiglin í skjölunum séu í lagi og að skjalið sjálft sé gilt. Það er mikill munur á því að nota staðfestingarþjónustu sem er Fullgild staðfestingarþjónusta sem þýðir að óháður samræmismatsaðili er búinn að votta þjónustuna og staðfesta að öllum viðeigandi ETSI og eIDAS kröfum sé fylgt ítarlega. Niðurstöðurnar eru þannig áreiðanlegar og hafa hærri réttaráhrif heldur en ef staðfestingarþjónusta sem er ekki fullgild er notuð,“ segir Ólafur Páll Einarsson, framkvæmdastjóri Dokobit á Íslandi, en fyrirtækið þjónusta m.a. flesta viðskiptabanka á Íslandi.

Ólafur Páll bendir á að staðfestingarþjónustur sem eru ekki fullgildar yfirfari oft ekki allar nauðsynlegar kröfur til undirskriftanna þó þær sýni jákvæðar niðurstöður fyrir undirskriftir t.d. frá sama birgja og eru niðurstöðurnar því ekki alltaf áreiðanlegar. Það geti því gerst að kerfið sýni að undirskriftin sé gild þegar hún er það í raun og veru ekki.

„Það eru nokkrar ástæður fyrir því að rafrænar undirskriftir og innsigli geta verið ógild eða geta tapað gildi sínu. Til dæmis getur verið að fullgilda skilríkið sem var notað til að undirrita skjalið hafi verið afturkallað eða það var útrunnið á þeim tíma sem undirritun eða innsiglun átti sér stað, undirskriftin eða innsiglið var framkallað með rafrænu skilríki sem ekki var fullgilt, tímastimpli sem ekki er fullgildur var bætt við eða ef skjalinu hefur verið breytt eftir að það var undirritað eða innsiglað,“ segir hann.

Dokobit þjónustar meðal annars fyrirtæki eins og Landsbankann, Íslandsbanka, Landsvirkjun, KPMG, Origo, Creditinfo, íslensk ráðuneyti o.fl.

Samkvæmt Ólafi Páli eru eingöngu 17 aðilar í Evrópu, eins og staðan er í dag, sem bjóða upp á Fullgilda staðfestingarþjónustu. „Dokobit hefur farið í gegnum strangt vottunarferli og fengið titilinn Fullgildur traustþjónustuveitandi fyrir staðfestingu á rafrænum undirskriftum og rafrænum innsiglum. Hægt er að nota staðfestingarskýrslu úr kerfinu okkar sem sönnunargagn fyrir dómstólum þar sem hún sýnir gildi undirskriftanna,“ segir Ólafur Páll.