Eftir að hafa aukist töluvert í sumar, dróst farþegafjöldi Icelandair hratt saman aftur í kjölfar hertra takmarkana á landamærum frá og með 19. ágúst sl. Fraktflutningar hafa dregist mun minna saman en farþegaflug á tímabilinu. Þetta kemur fram í mánaðarlegum flutningatölum fyrir ágústmánuð sem Icelandair Group birti í Kauphöll í dag.

Heildarfjöldi farþega hjá Icelandair var um 73 þúsund í júlí og hafði þá fjórfaldast á milli mánaða. Ágústmánuður fór vel af stað og útlit var fyrir áframhaldandi vöxt í fjölda farþega. Félagið hefur þó þurft að draga töluvert úr flugframboði eftir 19. ágúst til að bregðast við hertum sóttvarnaraðgerðum á landamærum sem hafa haft mikil áhrif á eftirspurn eftir flugi til og frá landinu.

Heildarfjöldi farþega hjá Icelandair í ágúst var um 67 þúsund og dróst saman um 88% á milli ára. Þar af voru hátt í 53 þúsund farþegar til Íslands og um 13 þúsund frá Íslandi. Ef horft er til þess af er ári er samdrátturinn 77% milli ára, en heildarfjöldi farþega síðan í janúar nemur 722.117 farþegum.

Tengiflug milli Evrópu og Norður Ameríku var í algjöru lágmarki í ágúst vegna ferðatakmarkana í Bandaríkjunum. Heildarframboð hjá Icelandair minnkaði um 89% á milli ára. Fjöldi farþega hjá Air Iceland Connect var tæplega 13 þúsund í ágústmánuði og fækkaði um 58% á milli ára, en um 52% ef horft er til ársins í heild en þeir hafa verið 92.186. Framboð í innanlandsflugi minnkaði um 66% á milli ára.

Seldir blokktímar í leiguflugstarfsemi félagsins drógust saman um 77% á milli ára í ágúst en hafa dregist saman um 42% á milli ára það sem af er ári. Flutningastarfsemi félagsins gekk samkvæmt áætlun í ágúst og drógust fraktflutningar mun minna saman en farþegaflug, eða um 23% og hafa aðeins dregist saman um 16% það sem af er ári.

Bogi Nils Bogason , forstjóri Icelandair Group:

„Þrátt fyrir mikinn samdrátt í farþegaflugi, gekk sumarið að mörgu leyti betur en við höfðum búist við. Farþegafjöldi jókst umtalsvert frá miðjum júní þegar ferðatakmörkunum hafði verið aflétt og fram í ágúst. Jafnframt náðum við að auka tekjur með því að nýta tækifæri í leiguflugi og fraktflutningum á tímabilinu,“ segir Bogi Nils.

„Nú horfum við hins vegar á mikinn samdrátt í farþegaflugi á ný eftir að takmarkanir á landamærum voru hertar eftir miðjan ágúst. Félagið er þó vel í stakk búið til að takast á við slíkar breytingar og leggjum við höfuðáherslu á að viðhalda sveigjanleika til að geta brugðist hratt við þeirri stöðu sem er uppi á hverjum tíma á mörkuðum Icelandair.“