Heildarkostnaður á framkvæmdum við Borgarlínu er áætlaður um 52,8 milljarðar króna, þar af yrði hlutur ríkissjóðs 46,2 milljarðar. Sé miðað við 3% ávöxtunarkröfu, þá eru núvirt framkvæmdaframlög ríkisins til Borgarlínunnar, sem ná utan um tímabilið 2019-2023, um 37 milljarðar króna. Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þingmann Miðflokksins, um núvirtan heildarkostnað ríkisins af verkefninu.

Í skjalinu er bent á að framangreind fjárhæð nær eingöngu utan um stofnkostnaðinn við að framkvæma samgönguverkefnið en ekkert hafi verið ákveðið um framtíðarrekstrarfyrirkomulag.

„Ábati í þessu verkefni gæti t.d. verið fólginn í mögulegum beinum tekjum af farþegum Borgarlínunnar eða annarri umferð og af tímasparnaði og slysasparnaði í samgöngum samhliða lækkun kostnaðar vegna samdráttar í annarri umferð. Afvöxtun á framkvæmdaframlögum ríkissjóðs einum og sér fangar því ekki núvirði verkefnisins í heild heldur endurspeglar einungis hversu háa fjárhæð þyrfti að setja til hliðar í fjárfestingarsjóð með tiltekinni ávöxtun til að unnt væri að fjármagna hlutdeild ríkisins yfir allt tímabilið,“ segir í svari Bjarna.

Sigmundur Davíð spurði einnig út í rekstrarkostnað Borgarlínunnar og annarra almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu til framtíðar. Bjarni segir að ekki hafi verið samið um neina aðkomu ríkisins að rekstri Borgarlínunnar.

Frá árinu 2012 hafi ríkið styrkt rekstur almenningssamgangna um einn milljarð á ári. Af þeirri upphæð færu 90% í rekstur almenningssamgangna innan höfuðborgarsvæðisins en 10% í rekstur almenningssamgangna milli höfuðborgarsvæðisins og byggðakjarna á áhrifasvæði þess.

Samhliða undirritun samgöngusáttmálans í september 2019 var undirrituð viljayfirlýsing um framlengingu á framlagi ríkisins til eflingar almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2034. Er þar gert ráð fyrir að þessi framlög verði að minnsta kosti óbreytt að raunvirði út samningstímann eða sem svarar til 15 milljörðum króna uppsafnað á núverandi verðlagi. Það jafngildir um 12 milljörðum að núvirði.