Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, vill innleiða nýja stefnu í orkumálum í kjölfar innrásar rússneskra stjórnvalda í Úkraínu. Þetta kemur fram í grein hjá Financial Times.

Johnson segir að Bretland þurfi að auka orkuframleiðslu og stefna að því að verða minna háð ríkjum eins og Rússlandi þegar kemur að olíu og gasi.

Orkuverð hefur hækkað ört á undanförnum mánuðum í Bretlandi og í Evrópu. Það mun hækka enn frekar á næstunni vegna innrásarinnar og viðskiptaþvingana á hendur Rússum. Stefnan hjá Boris mun að öllum líkindum fela í sér að auka framleiðslu Breta á Norðusjávarhráolíu og á jarðgasi. Jafnframt er gert ráð fyrir því að áætlunin feli í sér aukna kjarnorkuframleiðslu og framleiðslu endurnýjanlegar orku.

Á sama tíma segir hann mikilvægt að Bretland skuldbindi sig áfram til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið í samræmi við loftslagsmarkmið. Johnson hefur lagt fram áætlun í loftslagsmálum að Bretland verði orðið kolefnishlutlaust fyrir árið 2050.