Guðni Ingólfsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs PLAY. Guðni tekur við sem framkvæmdastjóri af Arnari Má Magnússyni, einum af stofnendum PLAY.

Arnar Már, sem var forstjóri flugfélagsins á árunum 2019-2021, hefur ákveðið að setjast aftur í flugstjórasætið og fara að fljúga í fullun starfi. Hann mun þó áfram sinna flugrekstrartengdum verkefnum hjá fyrirtækinu, að því er kemur fram í tilkynningu frá flugfélaginu.

Guðni hefur víðtæka reynslu af flugrekstri og mikla stjórnunarreynslu en hann var deildarstjóri áhafnadeildar hjá WOW air á árunum 2018 til 2019. Þar á undan starfaði Guðni hjá Icelandair í 22 ár, síðast sem forstöðumaður þjálfunardeildar á árunum 2015-2018. Þar áður sinnti hann ýmsum stjórnunarstörfum hjá Icelandair. Guðni kemur til PLAY frá Rio Tinto á Íslandi þar sem hann hefur starfað sem gæðastjóri frá 2019. Guðni er með meistaragráðu í aðgerðarannsóknum frá London School of Economics.

Arnar Már segist í tilkynningu hlakka til að halda áfram að starfa hjá PLAY á öðrum vettvangi innan félagsins, nú um borð í flugvélunum.

Arnar Már, fráfarandi framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs PLAY:

„Ég er stoltur á þessum tímamótum og þá sérstaklega af afrekum okkar sem teymi þar sem allir hafa lagt mikið á sig til þess að gera PLAY að því flotta fyrirtæki sem það er orðið. Ég lít svo á að tilgangi mínum við að koma PLAY í loftið sé lokið og ætla nú að sinna því sem mér finnst skemmtilegast en það er að fljúga með farþega okkar á vit ævintýranna. Frá sumri mun ég sinna starfi þjálfunarflugstjóra hjá félaginu og hlakka mikið til þess. Ég veit að flugrekstrarsvið PLAY er í frábærum höndum hjá Guðna og óska honum alls hins besta."

Birgir Jónsson, forstjóri PLAY:

„Arnar hefur verið lykilmaður í sögu PLAY enda einn af stofnendum þess og forstjóri þegar það var á sprotastiginu. Ég hef mikinn skilning á því að háloftin kalli á Arnar sem flugmann og ber mikla virðingu fyrir ákvörðun hans enda höfum við rætt hana í langan tíma. Ég verð þó að segja að ég mun sakna Arnars sem öflugs liðsmanns framkvæmdastjórnar félagsins en á sama tíma hlakka ég til að hitta hann um borð hjá PLAY og óska honum góðs gengis og þakka honum frábær störf á mikilvægum tímum í sögu PLAY.

„Flugrekstrarsviðið er mjög þýðingarmikil eining innan fyrirtækisins og það er vandasamt verk að ráða inn nýjan stjórnanda. Ég er algjörlega sannfærður um að við höfum fundið frábæran leiðtoga í Guðna Ingólfssyni. Flugrekstrarteymið er öflugt, faglegt og metnaðarfullt og Guðni mun halda áfram að styrkja það og efla á sama tíma og rekstur PLAY fer ört vaxandi.  Ég býð hann velkominn og hlakka mjög til að vinna með honum."